23/12/2024

Undarleg vinnubrögð DV

Margir íbúar Kaldrananeshrepps eru sárhneykslaðir eftir yfirgang blaðasnáps hjá DV síðasta sunnudags-eftirmiðdag en hann mun hafa hringt inn á fjölda heimila til að leita upplýsinga um ryskingar pilts og lögreglumanns sem áttu sér stað á þorrablóti á Drangsnesi kvöldið áður og endaði með að pilturinn var handtekinn. Sumir vilja meina að þessi vinnubrögð séu vægast sagt undarleg, að trufla daglegt líf íbúanna vegna þessa og álíta að fréttaflutningur DV hafi lítið breyst eftir ritstjóraskiptin á dögunum.

Mönnum finnst það merkilegt að neikvæðar fréttir af landsbyggðinni eigi greiðan aðang að síðum DV frekar en allur sá fjöldi jákvæðra tíðinda af mannlífinu á hverjum degi. „Það hefur löngum þótt erfitt að kenna gömlum hundi að sitja“, segir einn viðmælanda strandir.saudfjarsetur.is „en mér virðist DV vera í sama drullupyttinum og fyrr“.