22/12/2024

Umsóknarfrestur í Húsafriðunarsjóð að renna út

Frestur til að sækja um styrk í Húsafriðunarsjóð er að styttast, en hægt er að sækja um fram til 1. desember ár hvert. Úr Húsafriðunarsjóði eru veittir styrkir til margvíslegra verkefna sem tengjast ráðgjöf og áætlunargerð vegna viðhalds á friðuðum húsum og mannvirkjum og einnig til beinna viðhaldsverkefna. Þá er nefndinni heimilt að styrkja ráðgjöf og áætlunargerð vegna viðhalds á öðrum húsum og mannvirkjum en þeim sem eru friðuð, ef þau hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi og hið sama gildir um viðhaldið sjálft. Eins styrkir sjóðurinn gerð og útgáfu bæja- og húsakannana og byggingarsögulegar rannsóknir aðrar og útgáfu rita um þær.

Umsóknareyðublað og leiðbeiningar finna menn á www.husafridun.is. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur Strandamenn og eigendur friðaðra húsa að sækja um stuðning, enda hefur sýnt sig að staðir sem hafa staðið sig vel við endurgerð og viðhald gamalla húsa öðlast ákveðið aðdráttarafl sem eykur líkur á eflingu ferðaþjónustu og að fólk velji þá til búsetu.