24/04/2024

Verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum í vikunni

Í síðustu viku voru 7 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum. Sá sem hraðast ók var á ferð um Súgandafjörð og mældist á 124 km hraða en þar er 90 km hámarkshraði. Tvö alvarleg umferðaróhöpp urðu í vikunni. Bifreið valt í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi með fjórum innanborðs seinnipart þriðjudags og slösuðust tveir alvarlega. Þeir voru fluttir með sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Ökumaður er talinn hafa dottað undir stýri með þessum afleiðingum. Þá valt bifreið í Hrútafirði á Ströndum á föstudaginn. Farþegi slasaðist talsvert og var fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík.

Í vikunni var eigendum 49 bifreiða gefinn frestur í 7 daga til að færa bifreiðar sínar til lögbundinnar skoðunar.  Þá voru skráningarnúmer tekin af 15 bifreiðum ýmist vegna þess að tryggingar voru fallnar úr gildi eða vegna vanrækslu á skoðun.