22/12/2024

Umferð minnkar um Ennisháls

Smellið til að stækkaÍ frétt á heimasíðu Leiðar ehf kemur fram að umferð hafi aukist jafnt og þétt við Ögur í Ísafjarðardjúpi og yfir Gilsfjörð, en minnkað á veginum yfir Ennisháls á Ströndum síðustu tvö ár. Leið ehf telur að aukningu umferðar um Gilsfjörð og Djúp megi vafalaust þakka betri vegum, bættu tíðarfari, aukinni bílaeign og tíðari ferðalögum fólks, jafnt Vestfirðinga sem annarra á öllum árstímum. Lítillega hefur dregið úr umferð um Ennisháls á Ströndum tvö síðustu ár miðað við þessar tölur, eftir samfelldan vöxt fram til ársins 2003.

Leið ehf telur sennilegt að ástæða síaukinnar umferðar um Gilsfjarðarbrú ár frá ári, ekki síst vera vegna stóraukinnar umferðar um Þorskafjarðarheiði  yfir sumartímann, en þar hefur verið unnið að talsverðum lagfæringum vegarins síðustu tvö sumur.

Ferðaþjónustuaðilar á Ströndum sem strandir.saudfjarsetur.is hafði samband við, segjast ekki hafa greint að minni umferð fari um Strandir norðan við Ennisháls undanfarin sumur, heldur þvert á móti að umferð ferðafólks hafi aukist mjög verulega.
Því má líklegt vera að sú aukning umferðar sem á sér stað yfir Gilsfjörðinn eigi sér einnig skýringu í aukinni umferð yfir Tröllatunguheiði. Fjölmargir íbúar á Ströndum og ferðamenn kjósa þá leið frekar yfir sumartímann og stytta þannig vegalengdina milli Steingrímsfjarðar og suðvesturhorns landsins um 40 km, þó um tiltölulega ógreiðfæran veg sé að ræða. Rétt eins og margir íbúar við Ísafjarðardjúp kjósa að nýta veginn um Þorskafjarðarheiði þrátt fyrir ástand hans.

Samkvæmt meðfylgjandi súluriti minnkaði umferð um Ennisháls um 2,555 bíla á milli áranna 2003 og 2004. Á sama tímabili jókst umferð um Gilsfjarðarbrú um 5,475 ökutæki og um 1,825 við Ögur í Ísafjarðardjúpi.

.
Súlurit yfir umferð um Gilsfjörð, Ísafjarðardjúp og Ennisháls.
Leið ehf.