14/06/2024

Um jólatrésskemmtanir á Hólmavík

Jólaminning eftir Óla E. Björnsson
Dísa á Smáhömrum byrjaði að búa þar 1932. Ég átti heima á bænum þá sex vetra, en var á förum. Ekki varð ég var við neitt jólahald á þeim bæ fyrr en árið áður. Dísa skreytti þá heilmikið jólatré, sem stóð á miðju stofugólfi. Ég man lítið  sem ekkert eftir þessari hátíð, nema það að utan á tréð hafði Dísa hengt sælgætispoka og máttu við­staddir taka sinn pokann hver að eigin vali. Ég var fljótur til, en man ekki fleira frá tíðindum að segja, nema að Óskar Jónatansson, valdi sér rauða glerkúlu, mér til mikillar undrunar.

Á næstu jólum og komandi aldarfjórðungi voru okkar jól haldin á Hólma­vík. Þar var byggður barnaskóli 20 árum áður. Jólaskemmtanir fyrir börn voru eftir það haldnar í því húsi og einnig jólaböll fyrir full­orðna. Sú skipan var komin á 1932, þegar ég kom þangað og sjálf­sagt löngu fyrr, og hélst lítið breytt í mörg ár.

Stórt jólatré var í skólanum, náði upp undir loft og þurfti stiga til að vinna við standsetningu þess að ofanverðu. Þetta var ekki barrtré úr skógi eins og nú tíðkast, heldur smíðisgripur mikill með mörgum greinum. Á  toppinn var fest málmbjalla. Undir henni var fyrir komið kertaljósum og einhverju galdraverki, þeirrar náttúru að geta fengið bjölluna til að klingja svo fagurlega, að unun var á að hlýða. Jólasam­komurnar byrjuðu með tendrun bjöllunnar.

Jólatréð og greinarnar var sívafið krækilyngi. Var það mikið verk og þurfti heilmikið af lyngi. Sérstök nefnd kvenna var skipuð fyrir hver jól kringum þessa hátíð. Synir kvennanna og félagar þeirra fengu það hlutverk að útvega lyngið. Þótti það ábyrgðarmikið verkefni og var einnig eftirsótt, þó að fara þyrfti upp um allar Borgir hvernig sem viðraði.

Einu sinni hlaut ég sæti í lyngnámsnefndinni. Veðrið á leiðangursdaginn var ekki sem verst, þó vindgjóstur og skafrenningur. Hitt var verra, að undanfarið hafði fennt mikið, svo að allt var á kafi í snjó og sást ekki á dökkan díl. Flokkurinn stormaði af stað upp á Borgir og út eftir þeim ofanverðum, alla leið út á móts við Brandsskjól. Hvergi sást votta fyrir grænum lit. Þá loks varð okkur félögunum, sem ég man nú ekki lengur hverjir voru, orðið endan­lega ljóst, að málið væri tapað. Við yrðum að snúa heim lyng­lausir með öllu og hvað tæki þá við?  Líklega yrði að aflýsa jólatrés­samkomunni. Nefndarmenn reyndu að leyna tilfinningum sínum hver fyrir öðrum og láta sem minnst bera á volæðistóninum sem farið var að gæta í röddinni.

En þá varð einhverjum þeirra það á  að hrasa og grípa hendinni á kaf niður í snjóinn til að reisa sig við. Og þegar hann dregur hana upp aftur, hangir þá ekki við hana skrúðgræn krækilyngskló!! Ekki þurfti miklar rannsóknir til að finna að meira var  undir. Þarna út með Skúlaflóanum varð samstundis gríðarlegur lyng­rifs­­atgangur. Þá var mikið krafsað og klórað og allir lyngpokarnir troð­fylltir á skammri stundu. Heim skunduðu hnarreistir, vaskir og víllausir kappar, sigri hrósandi.

Eitt sinn lenti Þuríður kaupfélagsstjórafrú (móðir Óskars Jónatans­sonar) í jólatrésnefndinni. Við Óskar áttum heima í sama húsi (KSH) og einnig móðir mín. Þuríður (Huja) hafði mikið að gera í nefndinni og var okkur Óskari falið að útbúa kramarhúsin undir sælgætið handa börnunum.

Í þetta sinn fengust kramarhúsin á prentuðum örkum. Þurfti aðeins að klippa þau út og líma saman. Þetta gerðum við Óskar á stuttum tíma og dáðumst að handaverkunum. En okkur þótti kramar­húsin grun­sam­lega stór miðað við fyrri ár. Áttum við kannski að fá svona mikið nammi núna? Ekki væri það nú lakara og vel trúði ég henni Huju til þess, hún var mér vitanlega engin nánös. En svo var það hitt, að ekki var brúk fyrir nema helminginn af hönkunum á kramar­húsin, sem teikningarnar sýndu. Hvernig gat staðið á því? Jú, verktakarnir höfðu nefnilega litið skakkt á teikningarnar og límt tvær fyrirmyndir saman í eitt kramarhús og þá dugði einn hanki í stað tveggja, hinn varð afgangs! Huja og Ella móðir mín voru lengi kvölds að skera upp kramar­húsin stóru og líma þau saman á réttan hátt.

Skólahúsið var yfirleitt undirlagt allskonar marglitum pappírslengjum af músastigaættum. Til voru miklar birgðir af þessum dýrindum og öðrum skreytingum, sem notaðar voru ár eftir ár. Sennilega voru þetta eigur kvenfélagsins á staðnum. Á greinum trésins var fyrir komið fjöldanum öllum af logandi kertaljósum. Fólk gerði sér fulla grein fyrir eldhættunni og var höfð sérstök kona til að fylgjast með kertunum og skipta um þegar þau tóku að styttast. Alls konar skrauti var svo tyllt utan á tréð.

Gengið var langa stund kringum tréð og sungnir jólasöngvar og farið í leiki. Árni Gestsson kom oftar en ekki fram í gervi jólasveins. Þótti það ómissandi þáttur í jólagleðinni. Árni kunni alla jólaleiki og við­eigandi söngva, auk þess var hann mikilsháttar söng- og kvæða­maður sjálfur, kátur og hress. Hann var afar vinsæll meðal barna og þótti mikið vænt um þau.

Að endingu voru svo kramarhúsin áðurnefndu borin fram og dreift meðal viðstaddra. Þau höfðu verið hengd upp á nokkur kústsköft, eða kannski voru það hrífusköft, og var gengið með þau um salinn. Væru ávextir fáanlegir, sem ekki var nú sjálfgefið á þessum árum, kom fyrir að epli fylgdi kramarhúsinu. Og þá var hæsta tindinum náð.

Gleðileg jól!
Óli E. Björnsson  12. desember 2009