22/11/2024

Trésmiðjan Höfði tekur til starfa

Nýtt fyrirtæki hefur litið dagsins ljós á Hólmavík. Það er Trésmiðjan Höfði ehf. sem hefur keypt eignir byggingar-fyrirtækisins Grundaráss, húsnæði þess, tæki og tól. Eigendur hins nýja fyrirtækis eru Haraldur V.A. Jónsson og Jón Gísli Jónsson á Hólmavík og eru þeir bjartsýnir á reksturinn. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is fór á stúfana og smellti myndum af eigendum fyrirtækisins, Haraldur var niðri á Höfða á smíðaverkstæðinu að líma saman glugga sem eiga að fara norður í Bjarnarfjörð, en Jón Gísli var í húsi Sauðfjársetursins úti á Skeiði að mála gluggakarma sem eiga að fara upp í Kollafjörð. Starfsmenn Grundaráss starfa áfram hjá hinu nýja fyrirtæki, en fyrsti starfsdagurinn var í dag.

Jón Gísli og Haraldur við smíðar – ljósm. Ásdís Jónsdóttir