22/12/2024

Tónlist fyrir alla á Vestfjörðum

tonlist-alla1

Verkefnið Tónlist fyrir alla heimsótti Strandir í dag þegar TríóPa hélt tónleika í Hólmavíkurkirkju. Þar voru mætt skólabörn úr öllum grunnskólum á Ströndum og kennarar þeirra. Dagskráin bar yfirskriftina Kjúklingur og annað fiðurfé. Meðlimir í TríóPa eru söngvararnir Hallveig Rúnarsdóttir  og Jón Svavar Jósefsson og píanóleikarinn Hrönn Þráinsdóttir. Þau leggja í þessu verkefni upp með skemmtilega dagskrá til þess að kynna klassíska söngtónlist fyrir börnum landsins. Hér koma við sögu ýmis furðudýr eins og skrímsli, kurteisir kjúklingar og kettir sem skreppa til London, að ótöldum skötuhjúunum góðu, þeim Papageno og Papagenu úr Töfraflautu Mozarts. Dagskráin er blanda af atriðum úr Töfraflautunni, dúettum og einsöngslögum eftir núlifandi íslensk tónskáld, sem skrifuð eru með börn í huga og áhorfendur tóku virkan þátt í tónleikunum.

Þau Hallveig, Jón Svavar og Hrönn hafa öll vakið mikla athygli fyrir vandaðan og líflegan tónlistarflutning á undanförnum árum. Þau hafa öll unnið töluvert saman í gegn um tíðina í hinum ýmsu verkefnum, en þetta er fyrsta sjálfstæða verkefni tríósins TríóPa.

Tónlist fyrir alla leitast við að bjóða upp á vandaða skólatónleika fyrir börn þar sem skemmtun og menntun haldast í hendur. Boðið er upp á fjölbreytta tónlist í hæsta gæðaflokki í flutningi atvinnutónlistarfólks. Upplifun barnanna af tónleikunum er lykilatriði og áhersla er lögð á að hún verði sem allra best. Samtals heldur TríóPa 15 tónleika í skólum fyrir 858 grunnskólanemendur. Hér er því ströng og skemmtileg tónleikadagskrá framundan og vonandi að hver einasti nemandi fái notið.

Frá Hólmavík liggur leiðin á Reykhóla þar sem eru tónleikar kl. 14:00 í skólanum og svo áfram Vestfjarðarhringinn. Tónleikar verða á morgun þriðjudag í skólanum á Birkimel kl. 8:30 , í skólanum á Patreksfirði kl. 10:00, Tálknafirði kl. 11:15 og Bíldudal kl. 12:30. Miðvikudaginn 17. sept. eru tónleikar á Þingeyri kl. 8:20, Flateyri kl. 10:20 og Suðureyri kl. 11:45 í skólunum á öllum stöðum. Fimmtudaginn 18. sept. eru tónleikar fyrir alla í þrennu lagi á Ísafirði, kl. 11:15, 12:20 og 13:15. Föstudaginn 19. sept. verða svo tónleikar í Súðavíkurskóla kl. 9:45 og í Bolungarvík kl. 11:30.

Kvöldtónleikar þar sem markhópurinn er fullorðnir verða einnig haldnir í Hömrum á Ísafirði fimmtudagskvöldið 18. sept. kl. 20:00. Þar gefst íbúum tækifæri að njóta söngs og pianóleiks þeirra Hallveigar Rúnarsdóttur, Jón Svavars Jósefssonar og Hrannar Þráinsdóttur.

Meðfylgjandi ljósmyndir af tónleikum TríóPa á Hólmavík tóku Jón Jónsson og Esther Ösp Valdimarsdóttir.

IMG_0841 IMG_0869 IMG_0875 IMG_0877 IMG_0887