28/04/2024

Endurbætur á fjarskiptakerfum Mílu á Vestfjörðum

645-amstur8

Í frétt á vef Mílu frá 5. september kemur fram að fyrirtækið hefur gert aðgerðaáætlun um endurbætur á fjarskiptakerfum fyrirtækisins á Vestfjörðum í kjölfar funda stjórnenda fyrirtækisins með bæjar- og sveitastjórnum á Vestfjörðum. Þessi fundir voru haldnir í kjölfar þess að stór hluti íbúa, fyrirtækja og stofnana á Vestfjörðum varð síma- og netsambandslaus í um 6 klukkustundir þriðjudaginn 26. ágúst. Bilun varð í búnaði í tækjahúsi Mílu í Krossholti sem olli því að fjarskiptasambönd um kerfi Mílu á Vestfjörðum féllu niður. Á sama tíma var örbylgjukerfi Mílu í Ísafjarðardjúpi bilað, sem gerði að verkum að ekki var unnt að halda uppi lágmarksþjónustu á svæðinu meðan á bilun stóð.

Áætlun Mílu um aðgerðir til endurbóta á fjarskiptakerfinu gengur út á að styrkja örbylgjusambandið í Ísafjarðardjúpi. Einnig verður skipt um búnað á ljósleiðarakerfinu. Lokið verður við að setja upp nýja örbylgju innan mánaðar og í kjölfarið verður farið í útskiptingu búnaðar. Þessum aðgerðum er ætlað að auka rekstraröryggi kerfisins á svæðinu. Þrátt fyrir þessar áætlanir Mílu þá er fyrirtækið fullkomlega meðvitað um þá staðreynd að það er alls ekki fullnægjandi fyrir Vestfirði að vera með örbylgju sem hluta af stofnsambandinu. Það þarf því í framhaldinu að finna betri lausnir, til að tryggja fjarskiptaöryggi á Vestfjörðum.