11/09/2024

Tónleikar í Bolungarvík

Laugardaginn 7. október kemur út geisladiskur Kristins Níelssonar tónlistarskólastjóra í Bolungarvík, Gönguferð á sandi. Diskurinn er frumraun Kristins á útgáfusviðinu en Kristinn er síður en svo nýgræðingur í tónlistarflutningi. Kristinn býður öllum Vestfirðingum á útgáfutónleika í félagsheimilinu í Bolungarvík á laugardaginn klukkan 20:30 og vonast til að sem allra flestir komi og skemmti sér með honum. Diskurinn verður til sölu á staðnum á sérstöku kynningarverði, en þess má geta að Stefán Jónsson bílstjóri með meiru er einn þeirra sem taka lagið á tónleikunum.

Kristinn er Vestfirðingum að góðu kunnur, m.a. sem tónlistarskólastjóri, gítar- og fiðluleikari og söngvari í ýmsu samhengi. Tónlistin á Gönguferðinni er ljúf og lágstemmd, jazzskotin og með skandinavísku ívafi. Flytjendur eru ásamt Kristni, Önundur Pálsson sem jafnframt annaðist upptökustjórn og nemendur hans úr tónlistarskólanum í Bolungarvík þeir Kristinn Gauti, Hermann Ási og Valdimar, Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir og Jón Elíasson.

Söngvarar með Kristni eru þau Telma Björg Kristinsdóttir, Stefán Jónsson og Benedikt Sigurðsson. Lögin á disknum eru eftir Kristinn, nema tvö, en þau eru eftir gamla spilafélaga hans.