Tólf Strandamenn luku í kvöld 36 stunda tölvunámskeiði á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Á námskeiðinu sem ætlað var byrjendum var kennt á ritvinnslu, netið og tölvupóst. Stór hluti þátttakenda voru starfsstúlkur hjá Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík. Eins og nærri má geta var Strandavefurinn vinsæll hjá þátttakendum og var mikið skoðaður á meðan á námskeiðinu stóð. Það má því ætla að notendum hans fjölgi enn frekar eftir því sem fleiri taka tölvutæknina í sína þjónustu. Þess má geta að meðalaldur á þessu námskeiði var frekar hár miðað við fyrri námskeið og að konur voru í yfirgnæfandi meirihluta.
Nú geta þeir sem hafa áhuga á að bæta við þekkingu sína sett sig í stellingar því fyrirhugað er að halda nokkur námskeið á næstunni. Þar á meðal er námskeið í Thailenskri matargerð undir öruggri stjórn matgæðingsins Báru Karlsdóttur. Þetta námskeið er eitt kvöld og eru karlar sérstaklega boðnir velkomnir og hvattir til að mæta.
Þá verður á næstunni boðið upp á námskeið um fjármál heimilanna, vefsíðugerð með front page, thailenska matargerð, Býr hagyrðingur í þér?, Strandamenn – hvað er svona sérstakt við þá?, Tilfinningagreind og Bloggnámskeið. Öll þessi námskeið hefjast þegar næg þátttaka hefur náðst, eins og fram kemur í dreifibréfi sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða sendi frá sér í dag. Það er því mikilvægt að skrá sig hið fyrsta en það má meðal annars gera hjá tengilið miðstöðvarinnar á Hólmavík, á netfanginu stina@holmavik.is.