16/10/2024

Idol kvöld í Félagsheimilinu

Siggi Marri, glaðbeittur skipuleggjandi.Síðasta Idol kvöld Hólmvíkinga verður haldið í Félagsheimilinu á Hólmavík. Skipuleggjendur Idol á Hólmavík tóku þessa ákvörðun í ljósi gríðarlegs áhuga Hólmvíkinga og nærsveitunga að fjölmenna að þessu sinni, en Heiða Ólafs frá Hólmavík er annar tveggja keppenda á lokakvöldinu. Að sögn Sigurðar Marinós Þorvaldssonar annar skipuleggjanda Idol á Hólmavík, þá stefnir í mikla stemningu, fjör og samhug og að yfir hundrað gestir munu verða skreyttir litríkum "Áfram Heiða bolum".

Stöð 2 hefur boðað komu sína til Hólmavíkur að fylgjast með stemningunni en þetta verður fyrsta beina sjónvarpútsendingin af Ströndum. Sigurður segist vonast til að sem flestir mæti með stuðningsspjöld af hverju tagi, til að hvetja sína konu áfram.

„Þetta er snilld", segir Siggi Marri en hann vonast til að Strandamenn fylli Félagsheimilið á Hólmavík.