09/09/2024

Töðugjöld og dráttarvéladagur

Næstkomandi sunnudagur er hátíðisdagur hjá Sauðfjársetrinu í Sævangi. Þá eru töðugjöld og dráttarvéladagur þar sem vonast er til að Strandamenn og gestir þeirra fjölmenni í glæsilegt kaffihlaðborð og taki þátt í keppni í akstursleikni á dráttarvél. Þar tryggir fyrsta sætið í karla- og kvennaflokki sigurvegurunum frímiða fyrir 2 á Bændahátíð Sauðfjársetursins sem haldin verður síðar í haust. Dagskráin hefst kl. 14:00 með leikjum á vellinum fyrir alla fjölskylduna, síðan verður ökuleiknin á dagskrá og sjálfsagt verður fjölskyldufótbolti á vellinum áður en dagur er að kvöldi kominn.

Þær breytingar hafa verið gerðar hjá Sauðfjársetrinu að nú er á boðstólum svokallað sveitakaffi á kr. 600.- alla daga á opnunartíma sýningarinnar frá 10-18, kaffi og kaffibrauð. Kaffihlaðborð verða í ágúst einungis á dráttarvéladaginn nú á sunnudaginn og síðan á Meistaramótinu í hrútadómum sem haldið verður sunnudaginn 21. ágúst. Aðsókn að safninu var fremur dræm fram eftir öllu sumri, en nú er farið að rætast dálítið úr. Veður og veðurspá hefur sett strik í reikninginn á þeim dögum sem hátíðahöld hafa verið.