19/09/2024

Tippleikur á strandir.saudfjarsetur.is

Næstkomandi laugardag hefst skemmtilegur „tipp“leikur hér á strandir.saudfjarsetur.is. Leikurinn gengur í meginatriðum út á að tveir spekingar um enska boltann etja kappi með því að giska á úrslit leikja á getraunaseðli vikunnar. Sá vinnur viðureignina sem er með fleiri leiki rétta, en sá sem tapar skorar á nýjan aðila að reyna við sigurvegarann. Í lok leiktíðarinnar stendur sá uppi sem sigurvegari sem hefur átt lengsta óslitna sigurgöngu.

Ef jafnt verður í keppninni þurfa menn að keppa aftur hvor við annan helgina eftir, allt þangað til úrslit verða ljós. Þeir sem munu ríða á vaðið í þessum skemmtilega leik eru getspöku fótboltafíklarnir Þröstur Áskelsson á Hólmavík og Jón Jónsson á Kirkjubóli, en spá þeirra verður sett hér inn á vefinn síðar í kvöld.

Það verður án efa gaman fyrir fótboltaáhugamenn að fylgjast með leiknum hér á vefnum í vetur og líkur á að margir Strandamenn muni spreyta sig á tippinu næstu misserin. Það er Arnar S. Jónsson sem hefur umsjón með leiknum.