05/11/2024

Tillögur um byggðakvóta frá Strandabyggð

BátahöfninÁ aukafundi sveitarstjórnar Strandabyggðar síðastliðinn föstudag voru teknar fyrir reglur um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa vegna fiskveiðiársins 2006-2007. Samþykkt var á fundinum að bæta við úthlutunarreglur Sjávarútvegsráðuneytis ákvæðum um að helmingi byggðakvótans í Strandabyggð skyldi skipt jafnt milli útgerða sem til greina komi og hinum helmingnum í hlutfalli við landaðan afla í heimahöfn. Einnig að þær útgerðir sem leigt hefðu eða selt frá sér meiri aflaheimildir en þær hefðu keypt fái ekki hlutdeild í byggðakvótanum og ekki heldur ef að útgerðirnar hefðu ekki landað afla í heimahöfn á líðandi fiskveiðiári.

Jafnframt var tekið til umræðu erindi frá Hólmadrangi um að fá úthlutað 100,5 tonnum af byggðakvótanum, en ekki gerð tillaga um úthlutun til fyrirtækisins. Í fundargerð sveitarstjórnar kemurf fram að nota átti kvótann til að útvega rækjukvóta til viðskiptabáta fyrirtækisins er nemur að minnsta kosti 150 tonnum. Þá fylgdi umsókninni yfirlýsing frá FISK Seafood hf. sem skuldbatt sig til að leigja viðskiptabátum Hólmadrangs aflamark í rækju, allt að 150 tonn. Samkvæmt áliti frá Sjávarútvegsráðuneytinu var hins vegar talið afar ólíklegt að samþykki fengist fyrir þeirri breytingu að úthluta byggðakvóta til skipa sem ekki eru skráð með heimahöfn á Hólmavík 1. maí 2007 og eigandi ekki með lögheimili á Hólmavík 1. maí 2007. 

Tillagan sem lögð var fram á sveitarstjórnarfundinum og samþykkt samhljóða var svohljóðandi:

“Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar 1. júní 2007 var tekið fyrir bréf ráðuneytisins frá 21. maí s.l. þar sem tilkynnt er um úthlutun byggðakvóta til Strandabyggðar. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leggja til við ráðuneytið að til viðbótar við hin almennu skilyrði sbr. 1.gr. rgl. nr. 439/2007 komi eftirfarandi skilyrði:

d) Hafi útgerð selt eða leigt frá sér meiri aflaheimildir en hún hefur keypt eða leigt til sín í þorskígildum talið og/eða bátur/skip í hennar eigu ekki landað afla í heimahöfn á líðandi fiskveiðiári kemur hún ekki til greina við úthlutun byggðakvóta.

e) Skipta skal helming úthlutaðs byggðakvóta, 68,5 tonnum, jafnt milli þeirra báta/skipa sem rétt eiga á úthlutun skv. fyrrgreindum reglum en 68,5 tonnum skal úthlutað í hlutfalli við landaðan afla þeirra í heimahöfn á líðandi fiskveiðiári."

Í umræðum um tillöguna kom fram að Eysteinn Gunnarsson taldi að betra hefði verið að úthluta jafnt milli þeirra báta/skipa sem rétt eiga á byggðakvóta. Tillagan var síðan samþykkt samhljóða í atkvæðagreiðslu, en þarf staðfestingu Sjávarútvegsráðuneytis til að verða að veruleika.