28/03/2024

Þorrablótin að hefjast

Nú líður að því að þorrablótavertíðin byrji og Átthagafélag Strandamanna tekur forskot á sæluna á laugardaginn kemur. Þorrablót Átthagafélagsins verður haldið 13. janúar í Gullhömrum, Þjóðhildarstíg 2 í Grafarholti. Húsið opnar kl. 19:00, en borðhald hefst kl. 20:00 stundvíslega og verður Sigvaldi Ingimundarson veislustjóri. Til skemmtunar verður dansatriði með Guðmundi Ingimarssyni og félögum. Friðrik Ómar og Guðrún Gunnarsdóttir verða með létt söngatriði og Ragnar Torfason sér um fjöldasönginn. Að borðhaldi loknu mun danshljómsveitin Klassík spila gömul og ný lög.

Miðaverð á þorrablót Átthagafélagsins er 5.500.-. Miðasala verður í Gullhömrum fimmtudaginn 11. janúar frá 17-19. Miðar verða einnig seldir á dansleikinn eftir borðhald eða frá 23:30 á kr. 1.500.-

Af öðrum þorrablótum sem frést hefur af tímasetningu á er það að segja að þorrablót verður haldið á Drangsnesi laugardaginn 27. janúar og þorrablót Strandabyggðar á Hólmavík verður haldið 3. febrúar.