05/12/2024

Lagasamkeppni fyrir Hamingjudaga

Menningarmála-nefnd Hólmavíkur-hrepps hefur ákveðið að efna til samkeppni um hátíðarlag fyrir fjölskyldu- og bæjarhátíðina Hamingjudagar á Hólmavík, sem fram fer helgina 1. – 3. júlí 2005. Laginu er ætlað að vera kynningarlag hátíðarinnar og verður dreift til allra útvarpsstöðva innanlands. Reglur í samkeppninni um hátíðarlag fyrir Hamingjudaga á Hólmavík eru eftirfarandi:


1. Lag og texti verður að vera frumsamið.
2. Lagið má ekki hafa verið flutt opinberlega áður.
3. Lengd lags skal vera að hámarki 3 mínútur.
4. Demó eða lokaútgáfu lagsins skal skilað inn á geisladiski.
5. Texti skal fylgja.
6. Höfundur sigurlagsins skuldbindur sig til að koma lokaútgáfu lagsins í þann búning sem hentar til spilunar í útvarpi fyrir 5. júní 2005.
7. Merkja skal diskinn og önnur gögn með dulnefni. Rétt nafn ásamt heimilisfangi og símanúmeri skal fylgja með í lokuðu umslagi merktu sama dulnefni.  Koma skal fram hvort um demó eða lokaútgáfu lagsins er að ræða.
8. Skila skal lögum fyrir 25. maí n.k. á skrifstofu Hólmavíkurhrepps eða í pósti,     
    utanáskriftin er:

Hamingjudagar á Hólmavík – Lagasamkeppni
Hólmavíkurhreppur
Hafnarbraut 19
510 Hólmavík

Verðlaun og viðurkenning
Veitt verða verðlaun fyrir sigurlagið kr. 25.000. Viðurkenningin felst þó að stærstum hluta í því að sigurlagið verður lag hátíðarinnar og að Idol stjarnan Heiða Ólafsdóttir kemur til greina með að syngja lagið ef vilji höfunda er til þess. Þá er skilyrði að lagið uppfylli kröfur útgefanda um gæði, en Heiða hefur nýlega gengið frá samningi þess efnis.
 
Áherslur dómnefndar þegar kemur að því að velja sigurlagið
Þriggja manna dómnefnd velur sigurlagið. Haft verður að leiðarljósi að lag og texti henti tilefninu, sé fjölskylduvænt, faglega unnið og vænt fyrir flesta aldurshópa til áheyrnar. Dómnefndin skal hafa lokið störfum eigi síðar en 28. maí 2005.
 
Nánari upplýsingar um lagasamkeppnina
Framkvæmdastjóri Hamingjudaga á Hólmavík, Bjarni Ómar Haraldsson, verður tengiliður Menningarmálanefndar vegna lagasamkeppninnar og svarar fyrirspurnum höfunda eða annarra sem vilja kynna sér málið nánar. Hægt er að ná í Bjarna í síma 892-4666 eða 465-1344. Einnig er hægt að senda póst á póstfangið bjarniomar@snerpa.is