13/11/2024

Þökulagningin heldur áfram

Þann 2. maí síðastliðinn safnaðist fjöldi fólks saman í Brandskjólunum á Hólmavík og vann þar í sjálfboðavinnu við að leggja þökur á komandi íþróttavöll. Nú er ætlunin að endurtaka leikinn sem þótti takast mjög vel síðast að sögn Einars Indriðasonar verkstjóra hjá Strandabyggð. Einar telur að verkið sé um það bil hálfnað og hvetur alla sem vettlingi geta valdið að mæta. Mæting er kl. 19:30 á morgun, þriðjudaginn 8. maí, við Íþróttamiðstöðina og síðan marsera allir sem vettlingi geta valdið út á nýja völlinn og láta hendur standa þar fram úr ermum í vorblíðunni fram eftir kvöldi. Mikilvægt er að menn séu í góðum hlífðarfötum.