19/09/2024

Jón og Halldór á vígvellinum

Þeir Jón Jónsson og Halldór Logi Friðgeirsson eigast aftur við í tippleik strandir.saudfjarsetur.is nú um komandi helgi. Kapparnir gerðu jafntefli um síðustu helgi með þremur stigum gegn þremur og hlutu fyrir vikið skammir frá stjórnanda leiksins fyrir slælegan árangur. Þeir létu skammirnar þó lítið á sig fá og sendu óhikað inn spár fyrir getraunaseðil helgarinnar sem samanstendur af landsleikjum að þessu sinni. Ekki er þó hægt að segja að Jón og Halldór séu ósammála í spám sínum, en þeir eru sammála um hvori fleiri né færri en 10 leiki af 13 mögulegum. Það er engu að síður ástæða til að hvetja áhugamenn um fótboltann til að skoða spár og umsagnir kappanna sem eru að vanda athyglisverðar og gefa góða mynd af hugleiðingum hins almenna Strandamanns um boltann. Spárnar gefur að líta hér neðar og hvergi annars staðar:

1. Króatía – Svíþjóð

Jón: Svíar eru erfiðir og hafa ekki fengið á sig nema 2 mörk í keppninni til þessa, en skorað 27 stykki. Framlínan á hins vegar við meiðsli að stríða í þessum leik, Larson, Ljungberg og Zlatan Ibrahimovich eru allir í bólinu, þannig að nú skora þeir ekki neitt. Þetta er hreinn úrslitaleikur um sigur í riðlinum og ég spái Króatíu sigri. Tákn: 1.

Halldór: Króatar hafa verið á góðri siglingu og vinna heimasigur. Tákn: 1.

+++

2. Danmörk – Grikkland

Jón: Danir eru í góðum gír á heimavelli og Grikkir eiga ekki séns, þó þeir hafi grísað á sigur í Evrópukeppninni um árið. Tákn: 1.

Halldór: Frændur okkar danir verða ekki í vandræðum evrópumeistarana. Tákn: 1.

+++

3. Tékkland – Holland  

Jón: Tékkar eru þéttir á velli og þéttir í lund. Hollendingar hafa verið í góðum gír síðustu árin, en svo bregðast krosstré sem önnur tré. Tákn: 1.

Halldór: Þetta verður skemmtilegur leikur þar sem hrossið kemst ekki á blað og endar með jafntefli. Tákn: X.

+++

4. Sviss – Frakkland 

Jón: Frakkarnir hafa nú ekki verið að skora mikið, en fá heldur ekki mikið á sig af mörkum. Svissarar hafa komið á óvart í keppninni til þessa, en í þessum leik verður vörnin hjá þeim morandi í götum og því fer sem fer. Tákn: 2.

Halldór: Reikna með að Cisse nái að fylla skarð Henry og Frakkar vinna. Tákn: 2.

+++

5. Belgía – Spánn 

Jón: Belgar gætu náð jafntefli ef heppnin er með þeim. Ég held samt ekki. Tákn: 2.

Halldór: Treysti á að Spánverjarnir taki Belgana. Tákn: 2.

+++

6. England – Austurríki 

Jón: England er í fantaformi og Campbell kemur af bekknum og skorar markið sem þarf að skora. Tákn: 1.

Halldór: Nú er að duga eða drepast fyrir Erikson, reikna með að tjallarnir girði sig í brók og vinni góðan sigur.  Tákn: 1.

+++

7. Ítalía-Slóvenía  

Jón: Ítalía er í góðum gír og vinnur öruggan sigur. Tákn: 1.

Halldór: Nokkuð pottþéttur heimasigur. Tákn: 1.

+++

8. Finnland – Rúmenía    

Jón: Það er kalt í Finnlandi um þessar myndir og Rúmenarnir þurfa að hlaupa um sem óðir séu til að halda á sér hita. Finnar hafa komið sterkir inn í þessari keppni, en nú hleypur allt í baklás. Ef ég man rétt spila einhverjir finnskir skógarhöggsmenn með Liverpool þannig að Halldór ofmetur örugglega getu Finnanna. Tákn: 2.

Halldór: Finnarnir ná að hanga á jafntefli. Tákn: X.

+++

9. Búlgaría – Ungverjaland

Jón: Þetta er erfiður leikur sem getur farið á hvorn veginn sem er. Það gerir hann líka. Tákn: X.

Halldór: Reikna með að Búlgararnir hafi þetta.Tákn: 1.

+++

10. Litháen – Serbía/Svartfjallaland

Jón: Serbarnir hljóta að vinna þetta, svo ekki sé nú minnst á Svartfellingana. Tákn: 2.

Halldór: Vandræðalaust fyrir Serbana. Tákn: 2.

+++

11. Kýpur – Írland  

Jón: Kýpur á engan séns. Tákn: 2.

Halldór: Írarnir taka þetta,ekki spurning. Tákn: 2.

+++

12. Skotland – Hv. Rússland

Jón: Ég veit að allir spá Skotlandi sigri og Halldór gerir það ábyggilega líka. Ég sá hins vegar leik með kvennaliðinu hjá Hvíta-Rússlandi um daginn og hreifst mjög af liðinu. Tákn: X.

Halldór: Hvít-Rússar koma á óvart og ná jafntefli. Tákn: X.

+++

13. Slóvakía-Eistland   

Jón: Nja, tja, ja, já. Heimasigur. Tákn: 1.

Halldór: Slóvakar vinna góðan heimasigur. Tákn: 1

+++

Jón: Það gæti nú hvaða meðalauli sem er fengið 13 rétta á þessum auma landsleikjaseðli. En af því við Halldór erum ekki neinir meðalaular reikna ég ekki með að við fáum nema í mesta lagi svona 6-7 rétta. Alveg sama þó leikstjórinn hafi skammað okkur fyrir 3-3 jafnteflið um síðustu helgi. Halldór fær þá væntanlega 6 og ég 7, býst ég við.
 
Halldór: Ekki vann Jón mig síðast!!! Nei, annars best að vera ekki svona borubrattur. Því ekki var árangurinn sem bestur. Reikna með að ganga betur að þessu sinni.