24/04/2024

Þokkaleg mæting á Borðeyrarfundinn

Síðastliðið þriðjudagskvöld var haldinn kynningarfundur á Borðeyri vegna kosninga til sameiningar Bæjarhrepps og Húnaþings vestra. Er þetta annar almenni fundurinn sem haldinn er á Borðeyri í þessu sambandi og sá fjórði í heild en tveir fundir hafa verið haldnir á Hvammstanga. Sameiginlegur kynningarfundur beggja sveitarfélagana verður svo haldinn miðvikudaginn 5. október á Laugarbakka í Miðfirði. Garðar Jónsson verkefnisstjóri fór yfir efni kynningarbæklingsins sem samstarfsnefndin gaf út um framtíðarsýn í sameinuðu sveitarélagi og hafði verið sendur á öll heimili í sveitafélögunum tveimur.

Efni bæklingsins var fyrst og fremst niðurstaða þriggja nefnda sem hafa starfað á vegum sveitarfélagana um framtíðarsýn í sameinuðu sveitafélagi. Skipaðar voru þrjár nefndir sem hver um sig voru skipaðar tveimur mönnum úr hvoru sveitafélagi og einum til vara. Varamenn tóku virkan þátt í vinnunni. Þetta voru nefndir um stjórnsýslu og fjármál, fræðslumál og svo aðra þjónustu og skipulagsmál. Tekið var tillit til þess við val í nefndirnar að þeir sem þar störfuðu hefðu eitthvað með þessi mál að gera hjá sveitafélögunum, var það gert til að reyna að fá sem faglegustu sýn á málin. Fyrir svörum voru nefndarmenn samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélagana og á fundinn voru einnig mættir til að svara þeir Garðar Jónsson og Guðjón Bragason skrifstofustjóri í Félagsmálaráðuneytinu

Þokkalega var mætt á þennan fund á Borðeyri og töluvert var um fyrirspurnir fundarmanna. Það sem virtist brenna hvað helst á þeim fundarmönnum sem til máls tóku og tjáðu skoðanir sínar á fundinum, var að þeir óttast að hagsmunir Bæjarhrepps og þeirra sem þar búa verði fyrir borð bornir í sameinuðu sveitafélagi. Forræðið fer og fólk veit hvað það hefur en ekki hvað það fær. Þar vega menntamálin greinilega hvað þyngst. Það er líka augljóst að bæði útsvar og fasteignaskattar munu hækka í Bæjarhreppi ef sameinað verður. Í dag er útsvarsprósentan í Bæjarhreppi 12,5% en færi í 13,03%  Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði hækkuðu úr 0,29% í 0,38% og fasteignagjöld atvinnuhúsnæðis hækkuðu úr 0,7% í 1,30%.

Það kom fram á fundinum að bæði Bæjarhreppur og Húnaþing vestra standa vel fjárhagslega. Fram kom hjá Guðjóni Bragasyni að búast megi við breyttum forsendum er varðar greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það sé ljóst að með breyttu umhverfi breytist staða sjóðsins. Hann sagði kökuna ekki stækka heldur sneidda niður á annan hátt. Það má teljast miður hvað ríkisvaldið hefur haldið óbeinni hótun yfir öllu sameiningarferlinu hvað þetta varðar.

Það er ljóst að hjá þessum tveimur sveitafélögum hefur verið lögð fram mikil vinna til að nálgast þá framtíðarsýn sem blasað gæti við ef af sameiningu yrði. Með þessari vinnu stóð aldrei  til að reyna að koma fram með kosti og galla á hinum ýmsu málaflokkum, það er einfaldlega ekki hægt, því það sem einum finnst kostur getur öðrum fundist galli og öfugt. Það verður hver og einn að gera það upp við sjálfan sig hvað honum finnst. Þarna hafa margir einstaklingar lagt fram mikla vinnu og eiga þeir þakkir skildar fyrir. Öll þessi vinna var unnin á þeim árstíma sem margir hefðu frekar kosið að gera eitthvað annað en sitja fund eftir fund, en það er nú einu sinni þannig að oft þarf að gera fleira en gott þykir.

Íbúar eru hvattir til að mæta á kjörstað þann 8 október n.k. og hafa áhrif.