07/10/2024

Hvalveiðistöð frá 17. öld grafin upp

Undanfarna viku hafa staðið yfir fornleifarannsóknir á Strákatanga í Hveravík við norðanverðan Steingrímsfjörð. Verið er að grafa könnunarskurði og kanna búsetu baskneskra hvalveiðimanna á Ströndum. Um er að ræða samvinnuverkefni Strandagaldurs og Náttúrustofu Vestfjarða sem kallast Hvalveiðar Baska á Íslandi á 17. öld. Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur stjórnar verkinu ásamt Magnúsi Rafnssyni sagnfræðingi. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is leit við hjá þeim félögum í dag og komst að einu og öðru. Það lá vel á þeim félögum, enda er afraksturinn orðinn meiri en þeir höfðu þorað að vona.

Þetta er verbúð, erlend hvalveiðistöð
"Við vorum með nokkrar spurningar sem við lögðum fram í upphafi," segir Ragnar. "Við vildum kanna eðli þessara rústa á Strákatanga og komast að því hvort þær væru hvalveiðistöð og við erum búnir að komast að því að þannig er í pottinn búið. Einnig vildum við komast að því frá hvaða tíma þetta væri og það bendir allt til þess að þessar rústir séu frá 17. öld." Þetta er fyrsti uppgröfturinn sem miðar að því að kanna búsetu erlendra manna á Íslandi, annarra en t.d. Dana og annarra norrænna manna: "Hérna stóð örugglega hvallýsisbræðsla og það eru 80% líkur á að þetta séu Baskar og að þetta sé hvalveiðistöð, hér hafi verið lýsisbræðsla. Gripirnir benda líka til þess að þetta sé frá 17. öld." Þeir félagar hafa til dæmis fundið u.þ.b. tonn af múrsteini sem bendir líka til þess að minjarnar séu örugglega erlendar, enda ólíklegt að bændur á Ströndum á þessum tíma hafi getað orðið sér úti um múrsteina.

Ragnar segir þetta vera mjög spennandi verkefni. "Við erum búnir að finna um 35 gripi í allt fyrir utan múrsteinana. Það er mikið af járni, en við vitum ekki ennþá í hvað það hefur verið notað. Eitthvað af því eru naglar. Einnig höfum við fundið brot úr einhverskonar belgmiklu íláti sem á eftir að rannsaka nánar og finna út til hvers það hefur verið notað. Einnig höfum við fundið mikið af brotum úr krítarpípum sem sumar virðast vera merktar og einhver postulínsbrot. Þetta er talsvert meiri uppgötvun en við áttum von á, en við eigum eftir að rannsaka svæðið í tvo daga í viðbót. Óskastaðan er að finna einhverja mynt. Það er vonum framar hvað mikið hefur komið í ljós við fyrstu athuganir."

Magnús segir að í flestum hvalveiðibúðum, til að mynda í Kanada, hafi menn búið í skipunum en yfirmennirnir oft byggt sér hús í landi. Hvalveiðimennirnir hafi hins vegar verið þar töluvert lengur í einu, en hér á landi. "Það eru fjögur hús hérna í allt og við erum búnir að fá vitneskju um tvö þeirra og höldum að það geti verið að þriðja húsið sé einskonar skemma eða geymsla."

Baskar eru bæði spænskir og franskir menn
Baskar áttu skipin og gerðu þau út, en þeir voru bæði franskir og spænskir. Skipin voru oft mönnuð með sjómönnum sem bjuggu upp með Frakklandsströndinni, en Baskahéraðið er á landamærum Spánar og Frakklands. "Þannig að það er svolítið erfitt að átta sig nákvæmlega á þjóðerninu eins og við horfum á það í dag," segir Magnús og bætir við, "það er sagt í annálum að það hafi verið árið 1608 sem hvalaskutlan hófst við Vestfirði og 1610 er sagt í annálum að hafi fyrst komið spanskir á Strandir. Árið 1612 er talað um að franskir menn hafi komið á Strandir og einhvers staðar er sagt að þeir hafi verið á Eyjum á Bölum." Jóni lærði Guðmundsson (f:1574) skrifaði um það í Fjölmóði að það hafi verið Spánverjar sem voru við Steingrímsfjörð og að þeir hafi verið þar fyrir árið 1615. "Jón skrifar að þeir hafi komið hingað árið 1612," segir Magnús og Ragnar bætir við að það séu raunar engar heimildir um hvað þeir muni hafa verið lengi í stöðinni á Strákatanga, en segir oftast vera talað um franska hvalveiðimenn eftir 1615. Strákatangastöðin geti allt eins líka hafa verið notuð af Frökkum seinna.

Hvalveiðar hafa verið gríðarlega arðbærar veiðar á sínum tíma, en í Kanada hefur verið reiknað út að ein áma af hvallýsi hafi kostað um 5.000 dollara, sem er næstum því hálf milljón íslenskra króna fyrir tunnuna á verðlagi í dag. Skipin voru 100-200 tonn að stærð og gróðinn af veiðunum var svo mikill að skipin borguðu sig tvöfalt og stundum þrefalt í einni ferð. "Þetta er olíugróði þess tíma," segir Magnús, "en þetta er áður en jarðolían er tekin í notkun og var besta eldsneytið á þeim tíma sem völ var á. Jón lærði segir frá því að fyrsta sumarið sem Baskarnir stunduðu veiðar við Steingrímsfjörð þá hafi þeir veitt yfir 20 hvali sem gæti hafa fyllt yfir 100 tunnur."

Strákfengnir útlendingar
Þegar tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is innti þá félaga eftir því hvort örnefnið Strákatangi tengist á einhvern hátt veru Baskanna þar segja þeir það ekki svo gott að segja. "Það er það sem maður veit ekki," segir Magnús. "Það er nú talað um að sumir hásetanna hafi verið strákfengnir og stundum lent í útistöðum við heimamenn, en svo er það þetta um þessa tvo staði á Ströndum þar sem er að finna sagnir um að hafi verið hvalsstöðvar, hér á Strákatanga og á Strákaey sem er við Eyjar á Bölum. En það er iðulega talað um að þessir piltar hafi verið strákfengnir, þá væntanlega í meiningunni pörupiltar eða eitthvað þessháttar. Svo er nú til ein saga frá Kasarhólma á Eyjum þar sem Frakkarnir voru með stöð, að skipsstjórinn hafi verið svo strákfenginn að hann hafi stolið húsfreyjunni frá bóndanum í Eyjum og haldið henni í hólmanum til eigin afnota þangað til hann fór til útlanda aftur. En þá skilaði hann henni og bóndi tók bara við henni aftur eins og ekkert hefði í skorist."

"Það má líka vera að hún hafi átt jörðina, það er ekki gott að segja svona löngu seinna," bætti Ragnar kíminn við, enda liggur vel á strákunum á Strákatanga eftir afrakstur síðustu daga og ekki laust við að strákfengnum glampa bregði í augum þeirra.

Óskastaðan að grafa upp allar rústirnar
"Óskastaðan er að grafa að minnsta kosti allar rústirnar upp," segir Ragnar, "en það þyrfti að merkja svæðið og gera það aðgengilegt. Það vekur pottþétt áhuga ferðamanna á að koma hingað og skoða þetta. Þegar við reynum að meta rústir þá reynum við að meta þær eftir því hvert menningargildið er, en þessar rústir hafa bæði menningargildi innanhéraðs og einnig alþjóðlegt. Það eru raunar ekki margir staðir á Íslandi sem hafa alþjóðlegt gildi. Þetta eru tengsl við Baskalöndin sjálf, Spán og Frakkland og við Kanada og Norður Ameríku og tengsl við hvalveiðar undan ströndum Noregs. Þetta er staður sem útlendingar hefðu sérstakan áhuga á að heimsækja og fræðast um."

"Aðilar hjá Þjóðgarðsstofnun Kanada hafa þegar sett sig í samband við okkur," segir Magnús," og langar að fá að fylgjast með þessum rannsóknum og fá í hendur allt efni um leið og það kemur út. Einnig er áhugi hjá aðilum í Quebeck sem hafa verið að rannsaka hvalveiðar þar um slóðir á að fylgjast með. Það er mikilvægt að geta gert samanburðarrannsónir og spyrða þessa rannsókn saman við aðrar rannsóknir á hvalveiðum Baska í Norðurhöfum. Það er í Red Bay á Nýfundnalandi, á Labrador í Kanada, á Svalbarða og auðvitað í Frakklandi og Spáni."

Mun auka ferðamennsku á svæðinu
Ragnar Edvardsson segist vera sannfærður um að þessi staður geti aukið ferðamennsku á Ströndum og sérstaklega umferðina þarna megin í firðinum og í gegnum Drangsnes. "Ef verkefninu tekst að fá fjármagn til áframhaldandi rannsókna, þá er mikill vilji til þess hjá aðstandendum þess að opna svæðið og fræða gesti og gangandi um uppgröftinn og verkefnið. Við erum með í höndunum verkefni sem er ekki bara mikilvægt íslenskri sögu, heldur ekki síður sögu N.-Atlantshafsins og er mikilvægur liður í að rannsaka breytingar og áhrif mannsins á N.-Atlantshafssvæðið."

Það þarf vart að taka fram að það er öllum velkomið að kíkja við hjá þeim félögum og skoða sig um, en þeir verða að störfum á Strákatanga næstu tvo daga.

Strákatangi gengur langt út í Hveravík – ljósm. Sigurður Atlason