21/11/2024

Þjóðtrúarstofan fær brautargengi

"Við Strandagaldursmenn erum býsna kátir og ánægðir með að tillagan um Þjóðtrúarstofu sé ein af þeim 37 beinu tillögum sem Vestfjarðanefndin hafði í skýrslu sinni," segir Jón Jónsson þjóðfræðingur: "Við lítum svo á að það sé staðfesting á að ríkisvaldið muni veita hugmyndinni brautargengi og að því höfum við Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs verið að vinna í rúmt ár. Enn hefur ekki komið í ljós nákvæmlega hvernig útfærslan verður, en ég reikna með að það skýrist á næstu dögum."

"Það er sannfæring okkar Strandagaldursmanna að þessi störf sem verkefninu fylgja og Þjóðtrúarstofan sjálf muni hafa jákvæð áhrif á byggð og samfélag á Ströndum öllum," segir Jón og bætir við: "Eins og hugmyndin er hugsuð er gert ráð fyrir 10 milljóna árlegu framlagi til Þjóðtrúarstofunnar frá Menntamálaráðuneytinu og það er sá grundvöllur sem þarf til að byggja upp öfluga starfsemi til framtíðar. Miðað við þetta árlega framlag teljum við að hægt verði að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem stefnt hefur verið að með Þjóðtrúarstofunni."

"Við erum vissir um að með markvissri vinnu að fyrirliggjandi verkefnahugmyndum, samstarfs- og þjónustusamningum, verður hægt gera Þjóðtrúarstofuna að öflugum vinnustað háskólamenntaðra fræðimanna á fáum árum. Niðurstaðan í skýrslunni er í takt við tillögur okkar í ítarlegri og vandaðri greinargerð sem við sendum nefndinni. Þar fórum við fram á ákveðinn grundvallarstuðning, en síðan lögðum við einnig til að verkefnið sjálft myndi stækka og eflast og byggt verði ofan á þennan stuðning með sjálfsaflafé og verktakavinnu. Hugmyndin hefur alltaf verið sú að Þjóðtrúarstofan verði að sem allra mestu leyti sjálfbær starfsemi í framtíðinni."

Aðspurður um hvort almennur fögnuður sé með verkefnið á Ströndum segir Jón að fjöldi einstaklinga hafi fagnað þessum áfanga með aðstandendum verkefnisins og sent hamingjuóskir. "Einnig hafa allmargir aðilar sem við hyggjumst vinna með í framtíðinni sett sig í samband vegna þessarar niðurstöðu og fagnað því að Þjóðtrúarstofan sé að komast á laggirnar, m.a. þjóðfræðideild Háskóla Íslands, Háskólasetur Vestfjarða og fleiri. Sveitarstjórnarmenn á Ströndum hafa hins vegar kannski verið uppteknari af því sem ekki er í skýrslunni, en því sem þó er þar að finna."

 

Jón Jónsson þjóðfræðingur og Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs kampakátir með verkefnið Þjóðtrúarstofu – ljósm. Arnar S. Jónsson