Í næstu viku verður þemavika í Grunnskólanum á Hólmavík. Slík vika er hluti af skólastarfinu annað hvert ár en hitt árið er árshátíð. Þetta árið er áformað að bjóða upp á ýmsa listsköpun, matreiðsluhóp, útivistarhóp, fjölmiðlahóp og fleira. Endanlegt framboð ræðst þó á morgun þegar nemendur hafa valið sér hópa. Eins og fyrri ár vill Grunnskólinn gjarnan opna skólann sem mest fyrir almenningi þessa viku og hvetur fólk til að líta inn og sjá lifandi skólastarf.
Þá verður sýning í vikulok og hefst hún í hádeginu á föstudag. Þar gefur að líta afrakstur hópanna, ljósmyndir, slidessýningu og fleira. Það eru kennarar og annað starfsfólk Grunnskólans sem stýra hópunum en án efa munu íbúar sveitarfélagsins vera hjálplegir sem fyrr. Fjölmiðlahópur mun halda út öflugu kynningarstarfi og fréttaleit og munu fréttir birtast bæði hér á vefnum og vef Grunnskólans.