12/09/2024

Sýslumaður flyst til Ísafjarðar

Á fréttavefnum bb.is kemur fram að Kristín Völundardóttir, sýslumaður á Hólmavík muni taka til starfa sem sýslumaður á Ísafirði hinn 1. september og sinna því starfi í fjóra mánuði á meðan Sigríður Björk Guðjónsdóttir sýslumaður sinnir sérverkefni hjá embætti ríkislögreglustjóra. Kristín og sambýlismaður hennar, Kári Bergsson flytjast til Ísafjarðar á meðan á starfstímanum stendur ásamt tveggja ára dóttur sinni. „Þetta leggst bara mjög vel í mig“ segir Kristín í samtali við blaðamann bb.is „Ég er búin að koma og skoða sýsluskrifstofuna, hitta samstarfsfólkið og kynna mér aðstæður og líst vel á. Maðurinn minn er kerfisfræðingur og vinnur hjá fyrirtæki í Reykjavík svo hann getur verið staðsettur hvar sem er svo fremi að þar sé netsamband. Dóttirin er búin að fá pláss á leikskóla á Ísafirði og við hlökkum til að koma okkur fyrir þar…"

Í fréttinni kemur fram að Kristín stefni að því að sinna starfi sínu sem sýslumaður á Hólmavík jafnframt starfinu á Ísafirði, en bíður eftir svari frá dómsmálaráðuneytinu um hvort sú verði raunin. Það svar ætti að liggja fyrir um miðja þessa viku.

Þangað til þurfa Strandamenn að bíða og sjá til hvort þetta sé tilraun til að leggja niður embættið á Hólmavík án þess að mikið beri á.