Í dag verður opnuð sýning um afreksíþróttamanninn og kúluvarparann Hrein Halldórsson frá Hrófbergi við Steingrímsfjörð sem hefur viðurnefnið Strandamaðurinn sterki. Sýningin er sett upp í tengslum við að nú eru 40 ár liðin frá því hann náði því afreki að verða Evrópumeistari í kúluvarpi. Sýningin opnar í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum í dag, miðvikudaginn 21. júní kl. 16:00, og verður opin fram á haust. Strandamenn sem eiga leið um Austurland í sumar eru hvattir til að kíkja á sýninguna.