22/12/2024

Sveinn Kristinsson gefur kost á sér

Fréttatilkynning:
Sveinn Kristinsson bæjarfulltrúi á Akranesi gefur kost á sér í 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Sveinn Kristinsson er frá Dröngum á Ströndum en þar bjuggu foreldrar hans til 1966.
Hann hefur búið á Akranesi frá 1981. Sveinn er kennari að mennt og var skólastjóri á Ströndum, á Snæfellsnesi og einnig kennari í Dölum og á Akranesi. Þá hefur hann hefur unnið ýmis önnur almenn störf til sjávar og sveita, s.s. við sjómennsku, verkamannavinnu, landbúnaðarstörf, við blaðamennsku o.fl.

Sveinn varð varabæjarfulltrúi á Akranesi 1990 en var kjörinn bæjarfulltrúi 1994. Síðustu tvö kjörtímabil gegndi hann ýmist starfi formanns bæjarráð eða forseta bæjarstjórnar á Akranesi. Hann hefur verið virkur þátttakandi í félagsmálum og stjórnmálum frá unga aldri og sinnt margvíslegum verkefnum á þeim vettvangi.
Á árunum 2001-2006 vann Sveinn hlutastarf hjá Rauða krossi Íslands sem svæðisfulltrúi fyrir Vesturland og sunnanverða Vestfirði.

Fyrir utan margvísleg trúnaðarstörf fyrir bæjarstjórn Akraness hefur Sveinn setið í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og einnig í stjórn Faxaflóahafna sem fulltrúi Akraneskaupstaðar. Hann hefur einnig setið í ýmsum nefndum á vegum samtaka sveitarfélaga og er nú fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í Safnaráði. Þá er hann í Svæðisráði um málefni fatlaðra á Vesturlandi.

Hann er og hefur ávallt verið baráttumaður félagslegra viðhorfa, jöfnuðar og mannúðar í samfélaginu.
Meðfram störfum sínum að stjórnmálum og félagsmálum hefur Sveinn rekið ásamt systkinum sínum sjálfbæran hlunnindabúskap á Dröngum á Ströndum þar sem áhersla er lögð á æðarrækt og rekaviðarvinnslu.

Sveinn Kristinsson er kvæntur Borghildi Jósúadóttur kennara. Sveinn á sex börn á aldrinum 15 til 38 ára og sjö barnabörn.