13/11/2024

Guðbjartur Hannesson gefur kost á sér

Fréttatilkynning:
Guðbjartur Hannesson skólastjóri á Akranesi hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1.-2. sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi í komandi Alþingiskosningum.Guðbjartur er kennari að mennt frá Kennaraskóla Íslands en einnig með tómstundakennarapróf frá Kaupmannahöfn, stjórnunarnám frá Kennaraháskóla Íslands og meistaranám í “Fjármálum og menntun” frá Lundúnarháskóla.  Guðbjartur er fæddur og uppalinn á Akranesi og hefur búið þar og starfað að frátöldum nokkrum árum í námi og starfi erlendis. 

Guðbjartur hefur starfað sem skólastjóri Grundaskóla á Akranesi í 25 ár eða frá stofnun skólans.  Hann sat í bæjarstjórn á Akranesi í 12 ár og var öll árin jafnframt í bæjarráði.  Guðbjartur var bæði formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórna.  Guðbjartur starfaði 5 ár í bankaráði Landsbanka Íslands og var jafnframt eitt ár í bankaráði Heritable-banka í London (eign LÍ).  Guðbjartur hefur setið í ýmsum ráðum og stjórnum, m.a. útgerða- og orkufyrirtækja.  Hann hefur unnið að skipulagsmálum og málefnum fatlaðra á Vesturlandi.  Hann sat í svæðisráði fatlaðra á Vesturlandi og stýrði því um tíma.  Þá hefur hann gegnt margs konar trúnaðarstörfum tengdum skólastarfi.  Guðbjartur átti sæti í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í nokkur ár sem og í fulltrúaráði Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Guðbjartur hefur starfað í Skátahreyfingunni um árabil og var á yngri árum erindreki og framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra  skáta.  Auk þess hefur hann setið í stjórnum íþróttafélaga á Akranesi.

Guðbjartur sat í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins og gegndi þar formennsku.  Hann er einn af stofnfélögum Samfylkingarinnar og fyrsti formaður Akraneslistans forvera Samfylkingarinnar á Akranesi.  Hann er í Framtíðarhópi Samfylkingarinnar.

Guðbjartur er giftur Sigrúnu Ásmundsdóttur iðjuþjálfa.  Þau eiga tvær dætur, Birnu og Hönnu Maríu.