04/10/2024

Súpufundur næsta föstudag í stað fimmtudags

Næsti súpufundur Þróunarsetursins á Hólmavík og Arnkötlu 2008 verður haldinn föstudaginn þann 26. febrúar í stað fimmtudags eins og venjan hefur verið. Þá mun Halldór Jörgensen framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi koma í heimsókn og fjalla um hvernig framfarir í tækniþróun geti nýst við uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Einnig ræðir hann um netöryggi og hvernig hvetja megi til ábyrgrar hegðunar í rafrænum samskiptum. Hann vill vekja fólk til umhugsunar um hvernig börn og fullorðnir geta varast ýmsar þær hættur sem fylgja netnotkun. Súpufundurinn hefst að venju klukkan 12:00 og stendur til kl. 13:00. Það var fyrir um ári síðan sem súpufundirnir á Hólmavík fóru af stað og hafa síðan verið fyrirmynd annarra að samskonar verkefnum víða um land.