10/09/2024

Sumarstopp hjá Hólmadrangi

Nú líður að árlegu sumarstoppi í rækjuvinnslu Hólmadrangs ehf, en síðast vinnsludagur verður 3. ágúst og aftur farið af stað 21. ágúst.  Að sögn Gunnlaugs Sighvatssonar, framkvæmdastjóra verður tíminn nýttur til uppsetningu nýs búnaðar. Þar er um að ræða áframhald á þeim framkvæmdum sem ráðist var í síðasta haust, en þá voru settar upp fullkomnar pökkunarvélar. Fjárfestingin nú miðar að því að nýta þá fjárfestingu betur og gera alla vinnu við smápökkun auðveldari í skipulagningu og framkvæmd. 

Vel hefur gengið að selja afurðir hjá fyrirtækinu og afurðabirgðir verið í lágmarki. “Kaupendahópur okkar hefur stækkað við það að fara að pakka í neytendapakkningar. Margar rækjuvinnslur hafa verið að glíma við birgðavanda undanfarin misseri og má segja að sama hafi blasað við okkur í fyrrahaust. Ákvörðunin um kaup á pökkunarvélum hefur því klárlega skilað sér í sölu, en áfram búum við samt við lág afurðaverð og erfið rekstrarskilyrði almennt,” segir Gunnlaugur. 

Tíminn í stoppinu verður einnig nýttur í viðhald á húsnæði og tækjum.  “Í haust eigum við von á þremur stórum úttektum frá kaupendum og óháðum eftirlitsaðilum á húsnæði, búnaði og gæðakerfi fyrirtækisins, Góður árangur í þeim er algert skilyrði fyrir því að skapa eftirspurn eftir vörunni.”

Talsvert er af fólki að hverfa frá fyrirtækinu í skóla nú í haust og auglýsti fyrirtækið eftir starfsfólki nýverið  “Það er vöntun á starfsfólki hjá okkur," segir Gunnlaugur, "Haustið er jafnan besti sölutíminn fyrir rækju og ekki síst í smápakkningum. Það er áhugi á að starfsmannafjöldi sé nægur til að geta nýtt sér sem best þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar og jafnvel þörf á að auka við vinnslu tímabundið.”  Að sögn Gunnlaugs hafa laun verið góð miðað við sambærileg störf.  “Fyrir nokkrum árum var samið um nýjan vinnutíma og greiðslu afkastabónusar sem hefur skilað sér bæði fyrir fyrirtækið og starfsfólk, enda afköst verið mjög góð.”