12/09/2024

Örkin ST frá Seljanesi komin á flot á ný

Mótorbáturinn Örkin ST-19 frá Dröngum er komin á flot aftur eftir að hafa verið á þurru landi í áraraðir en Guðmundur Óli Kristinsson ásamt fleirum hafa gert bátinn upp og komið honum í upprunalegt horf. Kristinn H. Jónsson á Dröngum smíðaði bátinn á Seljanesi á áttunda áratugnum en Örkin er með hinu svokallaða vestfirska lagi og er smíðaður úr rekaviði af Ströndum. Báturinn fer innan skamms til Akraness en þar hefur verið stofnað áhugamannafélag um rekstur hans þar sem nokkrir afkomendur Kristins búa. "Það er mikil synd og skömm að allur þessi fjöldi af gömlum bátum hafi verið eyðilagðir, það hefur verið gert kerfi þar sem menn ganga eins og óðir hanar í mannaskít, eins og sagt er á Jökuldal, og eyðileggja báta," segir Guðmundur Óli Kristinsson í samtali við vefritið bb.is.

"Það eru mörg dæmi um að fallegir gamlir bátar voru sagaðir í tvennt með keðjusögum til að hindra að þeir færu á sjó aftur,“ bætir hann svo við. Guðmundar heldur því fram að mikil menningarverðmæti glatast þegar bátar hafa verið eyðilagðir og oft með stuðningi og að áeggjan stjórnvalda.

Örkin ST-19
Örkin ST-19 á siglingu.

Ljósmynd: Þorsteinn Tómasson / bb.is