22/12/2024

Sumarmölin: Tónlistarveisla á Drangsnesi


Núna nálgast risa tónlistarhátíðin Sumarmölin, sem haldin verður í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnes laugardaginn 15. júní. Það er frækið lið listamanna sem að mun koma fram en það eru hljómsveitirnar Valdimar, Ojba Rasta, Hemúllinn, Jónas Sigurðsson, Nolo, Gógó píurnar og Borko. Þetta verða stórtónleikar fyrir alla fjölskylduna, þeir hefjast klukkan 20:00 og standa til 00:30 en það er 16 ára aldurstakmark inn á tónleikana, þó eru yngri gestir hjartanlega velkomnir í fylgd fullorðinna.

Að tónleikunum loknum mun stuðið halda áfram á Malarkaffi þar sem plötusnúður mun leika tónlist fyrir hressa hátíðargesti. Hægt er að kaupa miða á tónleikana á miði.is en einnig við innganginn. Miðaverð er 3900 kr. fyrir fullorðna, 2000 kr. fyrir börn 6 – 12 ára og frítt fyrir yngri.

Borko og Jónas Sigurðsson
Jónas Sigurðsson snýr aftur á Drangsnes en hann tróð upp á Mölinni ásamt Ómari Guðjónssyni eftir talsverðar hremmingar í nóvember á síðasta ári. Í þetta skiptið ætla Jónas og Drangsnesnýbúinn Borko að leiða saman hesta sína og flytja tónlist sína í einum hrærigraut með frábærum meðspilurum. 

GóGó-Píurnar
Þessi bráðefnilegi söngflokkur var efstur í kjörinu um Strandamenn ársins 2012 og því erfitt að halda tónlistarhátíð á Ströndum án þess að GóGó-Píurnar stígi á svið. Þær hafa áður troðið upp á Aldrei fór ég suður og urðu í 2. sæti í söngkeppni Samfés í fyrra. 

Hemúllinn
Hemúllinn er hliðarsjálf Strandamannsins Arnars Snæbergs Jónssonar sem hefur dúkkað upp við ýmis tækifæri í gegnum tíðina, jafnt opinber sem og óopinber. Hemúllinn leikur grípandi, rafskotið einmenningspopp með glúrnum textum sem oft eru fullir af háði um lífið og tilveruna.

Nolo
Þessi frækni dúett hefur sem hefur sungið um fondú, strætóstoppistöðvar, og úthverfageimfara leggur nú land undir fót og mun vafalítið heilla gesti Sumarmalarinnar upp úr skónum indískotnu trommuheilapoppi sem er fullt af grípandi laglínum og hnyttnum textum.

Ojba Rasta
Strendur Jamaíka hafa sennilega verið hljómsveitinni Ojba Rasta meiri innblástur en Strandir við Húnaflóa. Það verður því áhugavert að sjá hvaða áhrif Strandaloftið hefur á grípandi reggítóna þessarar fjölmennu gleðisveitar.

Valdimar
Valdimar er ein vinsælasta hljómsveit landsins um þessar mundir og fékk á dögunum gullplötur fyrir báðar plötur sínar, Undraland og Um stund. Valdimar Guðmundsson, söngvari sveitarinnar, rekur ættir sínar stoltur í Hveravík við Steingrímsfjörð og heimsækir nú í fyrsta sinn ættjörð sína með hljómsveitinni sem kennd er við hann.