23/12/2024

Sumar og snjór í Árneshreppi

Oft hafa Íslendingar haft á orði að Sumardagurinn fyrsti sé ögn of tímanlega á dagatalinu, og víst má um það segja að sjaldnast er komið hásumar um það leyti. Engu að síður þá vekur dagurinn upp þá von að framundan sé bjartari tíð með blóm í haga. Norður í Árneshreppi þarf þó snjórinn að taka upp áður en sóleyjar og bláklukkur skjóta upp kollinum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Eysteinn Gunnarsson tók í Árneshreppi í gær, síðasta vetrardag. Því má bæta við að Leikfélag Hólmavíkur mun vera með sýningu þar í kvöld en það hefur löngum verið einn vorboðinn þar um slóðir.