22/12/2024

Styttist í Söngkeppni Samfés á Hólmavík

Nú stendur undirbúningur  fyrir Landshlutakeppni fyrir Söngkeppni Samfés sem hæst, en hún verður haldin í Félagsheimilinu á Hólmavík á föstudagskvöldið, þann 9. febrúar. Keppnin hefst kl. 20:00 og samanstendur af atriðum frá Hólmavík, Bolungarvík, Ísafirði og Þingeyri. Tvö atriði úr þessum Vestfjarðariðli verða valin til að keppa í lokakeppninni í Laugardalshöll þann 3. mars. Að sögn Bjarna Ómars Haraldssonar, forstöðumanns Félagsmiðstöðvarinnar Ozon gengur undirbúningur vel, en hann telur að búast megi við um 100 gestum frá þeim stöðum sem taka þátt í keppninni. Þrjú atriði koma frá Hólmavík að þessu sinni og aðspurður sagði Bjarni að æfingar fyrir þau gengu ágætlega þrátt fyrir töluvert álag á keppendur vegna prófaviku í grunnskólanum. Enginn keppenda er að missa röddina og allir meira en lítið til í tuskið.

Bjarni nefndi það einnig að ríkulegt framlag styrktaraðila hefði m.a. orðið til þess að glæsilegir vinningar verða í boði fyrir þrjú efstu sætin í keppninni, en styrktaraðilar keppninnar eru Tónabúðin, Nói Síríus, Penninn, Café Riis, Strandabyggð, JPV útgáfa, Staðarskáli og Menningarmálanefnd Strandabyggðar. Þegar fréttaritari spurði Bjarna út í möguleika keppendanna frá Hólmavík sagði hann að menn renndu dálítið blint í sjóinn með slíkar spekúlasjónir án þess að hafa séð hin atriðin. Á hinn bóginn séu hólmvísku keppendurnir sterkir og gætu náð góðum árangri ef vel tekst til.

Allir eru velkomnir á atburðinn og Bjarni hvetur fólk til að mæta til að hvetja sína uppáhaldskeppendur, sjá stemmninguna og njóta góðra tónlistaratriða. Skipulagningu og framkvæmd keppninnar annast Bjarni sjálfur ásamt unglingunum í félagsmiðstöðinni Ozon. Að keppni lokinni verður síðan dansleikur fyrir 7.-10. bekk. Þar koma fram hljómsveitirnar Xenofobia frá Ísafirði, Fire frá Hólmavík og aðalhljómsveit kvöldsins sem er Lady Madonna frá Reykjavík. Miðaverð á dansleikinn er krónur 500.