22/12/2024

Styttist í hátíð hrútanna

Nú eru aðeins 10 dagar til vetrarsólhvarfa, en þá fer dag að lengja að nýju. Þó okkur finnist kannski stundum dagarnir dimmir og stuttir þá fara nú í hönd gleðidagar. Ekki bara fyrir okkur sem fögnum fæðingu frelsarans og hækkandi sól, heldur líka hjá ánum og hrútunum í fjárhúsunum. Það er nefnilega að hefjast fengitími. Hrútarnir hafa nú safnað orku í heilt ár og eru spenntir að hitta reiðubúnar ær. Því miður fyrir sumar kindurnar þá missa þær þó samt af þeirri árlegu ánægju að hitta hrút.

Hluti af meistaraprófsverkefni Hafdísar Sturlaugsdóttur í Húsavík við Landbúnaðarháskóla Íslands felst í samanburði á hegðun forystuáa og venjulegara áa við burð og hvernig þær ala upp lömbin sín. Forystuær Hrafnhildar og Haraldar á Innra-Ósi ásamt samanburðarhópum venjulegra áa þar og í Húsavík aðstoða Hafdísi við rannsóknina.

Ærnar voru sæddar með sæði sem kom frá Sæðingastöðvunum í Borgarnesi og Selfossi. Þær hittu því ekki hrút þetta skiptið. Þess í stað mætti Guðbrandur Sverrisson, frjótæknir með meiru, á svæðið og tók ánægjuna af hrútunum. Það fór þó svo að Húsavíkurbóndinn vorkenndi svo hrútunum sínum eftir að Guðbrandur hafði yfirgefið fjárhúsin að hann gat ekki stillt sig um að leyfa lambhútunum sínum aðeins að prófa.

Frjótæknirinn glaðbeittur að vanda

Fróði leggur sig allan fram við Nótt

Dagur frá Steinadal hefur lokið sér af og Golsa er dreymin á svip