12/09/2024

Strandamenn sólgnir í hangikjöt

Samkvæmt lauslegri athugun Víkurfrétta á Suðurnesjum þá er marktækur munur á vinsælasta jólamatnum eftir landshlutum, sem í sumum tilvikum virðist mega rekja til nytja á hverjum stað. Þannig ætla til dæmis rösklega helmingur Suðurnesjamanna, eða 55 prósent að hafa hamborgarhrygg í jólamatinn samkvæmt skoðanakönnun Víkurfrétta. Næst kemur kalkúnn sem fimm prósent ætla að hafa í jólamatinn, fjögur prósent rjúpu, tvö prósent önd, en rúmlega þriðjungur er enn óákveðinn.

Rjúpnaveiði á Reykjanesskaganum myndi hvergi nær anna eftirspurn ef rjúpu ef hún væri jafn mikil og í Mývatnssveit. Eftir að veiðibanninu lauk hefur hún næstum ýtt hamborgarhryggnum til hliðar enda nóg af rjúpu á svæðinu handa öllum.

Í fréttinni segir að norður á Ströndum, þar sem góður sauðfjárstofn standi traustum fótum og riða sé óþekkt, að þar haldi hangikjötið velli sem vinsælasti jólamaturinn.

Grímseyingar hins vegar, sem lítið hafa af sauðfé og rjúpu, halla sér að hamborgarhryggnum eins og Suðurnesjamenn og í öllum tilvikum er átt við hátíðarmatinn á aðfangadagskvöld.