24/07/2024

Strandamaður ársins 2004

Sverrir GuðbrandssonSverrir Guðbrandsson á Hólmavík var kjörinn Strandamaður ársins 2004 með nokkrum yfirburðum í kosningu sem fréttamiðlarnir Fréttirnar til fólksins og strandir.saudfjarsetur.is stóðu fyrir nú í upphafi nýja ársins. Var tilkynnt um úrslit á Spurningakeppni Strandamanna í gær. Sverrir sem gaf út æviminningar sínar fyrir síðustu jól í bókinni Ekkert að frétta, tók þar við viðurkenningu og blómvendi, auk verðlaunagrips. Það var Sparisjóður Strandamanna sem styrkti kosninguna á Strandamanni ársins.

Alls fengu 32 einstaklingar atkvæði í kosningunni, af ýmsum ástæðum og úr öllum hlutum sýslunnar. Bók Sverris fékk mikið lof hjá þeim sem greiddu honum atkvæði sitt, enda er hún einstaklega vel heppnuð – húmorísk og einlæg ævisaga sem er ómetanlega heimild um mannlíf og búskap á Ströndum á 20. öldinni.

Í öðru sæti í kosningunni varð Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli og fékk hann flest atkvæðin fyrir að standa fyrir stofnun á fréttavefnum strandir.saudfjarsetur.is og ýmislegt framtak í ferðaþjónustu. Jafnir í 3.-5. sæti voru Victor Örn Victorsson skólastjóri á Hólmavík, Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Galdrasýningar á Ströndum og Arnar S. Jónsson sem fékk flest sín atkvæði fyrir öfluga þátttöku í margvíslegu félagsstarfi.

Sverrir Guðbrandsson

Sverrir Guðbrandsson tekur við verðlaununum