10/12/2024

Lóan er komin!

Fuglalífið er sífellt að verða fjölskrúðugra nú með vorinu. Skógarþrestir eru mættir á Strandir fyrir allnokkru og syngja allt hvað af tekur í görðum og við svefnherbergisglugga. Í fjörunni er tjaldurinn mættur fyrir mörgum vikum, en nú teistan líka komin að landi og stelkur hefur sést í hundraðavís síðustu daga. Endur af ýmsum stærðum fara einnig um fjörur. Hettumávar eru líka mættir á Strandir og í gær kváðust Strandamenn víða hafa heyrt í heiðlóu og hrossagauk. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is mætti svo heiðlóuhópi á túninu í morgungöngunni og voru fjórar af sex til í að sitja fyrir á meðfylgjandi mynd.