16/10/2024

Strandamaður á Evrópumót í krullu

Lið frá Krulludeild Skautafélags Akureyrar tekur þátt í Evrópumótinu í krullu sem fram fer í Aberdeen í Skotlandi 4.-12. desember. Landslið Íslands skipa Jón Ingi Sigurðsson fyrirliði, Strandamaðurinn Ólafur Númason, Jens Kristinn Gíslason, Haraldur Ingólfsson og Sveinn H. Steingrímsson varamaður. Þjálfari liðsins er Gísli Kristinsson. Í keppnum hér heima kallar liðið sig Mammúta og hafa liðsmenn hampað Íslandsmeistaratitlinum í tvö ár í röð.

Efnahagslegar ástæður komu í veg fyrir þátttöku á EM 2008 en með góðum stuðningi fjölmargra fyrirtækja er þátttaka í mótinu nú möguleg. Þetta er í annað sinn sem Íslendingar senda lið á Evrópumótið en einnig hafa lið héðan tekið þátt í HM 50 ára og eldri nokkrum sinnum.

Níu leikir á fimm dögum

Liðið heldur utan að morgni miðvikudagsins 2. desember en fyrsti leikurinn er gegn liði Slóvaka og hefst hann á hádegi laugardaginn 5. desember. Liðið leikur alls níu leiki á mótinu, tvo á dag frá sunnudeginum 6. desember fram á miðvikudaginn 9. desember. Keppinautar Íslendinga í riðli B2 verða Slóvakar, Ungverjar, Króatar, Belgar, Hvít-Rússar, Austurríkismenn, Walesverjar, Lettar og Írar. Þessar þjóðir eru í á bilinu 17.-34. sæti á heimslistanum en þar er Ísland í 41. sæti. Á Evrópulistanum eru keppinautarnir í sætum 12-29 en Ísland í 32. sæti.

Alls taka 30 þjóðir þátt í karlaflokki, tíu sterkustu þjóðirnar eru í A-flokki en Ísland á sæti í B-flokki þar sem 20 þjóðum er skipt í tvo riðla og leika tvö efstu liðin úr hvorum riðli til úrslita í B-flokki og um réttinn til að færast upp í A-flokk og réttinn til að leika um laus sæti á Heimsmeistaramótinu. Breyting verður gerð á Evrópumótinu á næsta ári og munu sex neðstu liðin í B-flokki nú færast niður í C-flokk.

Fréttir af mótinu

Fréttir af gengi liðsins verða birtar á vef Krulludeildar Skautafélags Akureyrar, www.curling.is, á bloggsíðu liðsins, www.mammothcurling.blogspot.com, og undir nöfnunum „Mammútar“ og „Krulla Landsliðið“ á Facebook. Upplýsingar um Krullusamband Evrópu eru á http://ecf-web.org og vefur mótshaldara er á http://www.ecc2009.co.uk en þar verður hægt að fylgjast með gangi mála og úrslitum leikja.

Landsliðið í krullu