12/09/2024

Ráðherra borinn yfirliði af tröllum?

Miðað við úrslit sameiningarkosninganna þá eru Strandamenn algerlega á öndverðum meiði við Árna Magnússon félagsmálaráðherra og á allt annarri skoðun en ráðuneytið hvað varðar sameiningarmál. Ef sagan er skoðuð þá ætti það ekki að koma nokkrum lifandi manni á óvart, en eins og öllum er kunnugt þá fluttu tröllin sig norður á Strandir fyrir árhundruðum til að lifa í friði fyrir ofríki andlegra og veraldlegra stofnana mannfólksins. Fyrir nokkru var sagt frá í myndatexta með frétt hér á strandir.saudfjarsetur.is að tröllin gætu ekki látið skoðun sína í ljós, en annað virðist hafa komið á daginn.

Þeir eru kannski færri sem hafa áttað sig á því að Strandamenn eru margir í það minnsta hálftröll og láta ekki hvern sem er, sama hvaða embætti sá kann að þjóna, segja sér til verka. Það er áberandi hvað Kerlingin á Drangsnesi, sem er eitt þeirra trölla sem gerði tilraun til að skilja Vestfirði frá meginlandinu til að losna undan yfirgangi mannanna í fyrndinni, hefur enn mikil áhrif  þó hreyfist hún hvorki hratt né mikið. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is náði þessari mynd af Kerlingunni þar sem hún las yfir hausamótunum á ráðherranum og bjó sig undir að kreista hann til hlýðni, skömmu eftir að tók að húma á kosningadaginn.