23/12/2024

Strandabyggð á tveimur stöðum?

Nú hefur um nokkra hríð verið inni skoðanakönnun hér á vefnum um hvaða nafn mönnum fellur best á nýtt sameinað sveitarfélag Broddanes- og Hólmavíkurhreppa. Eru þar talin upp þau fjögur nöfn sem send voru Örnefnanefnd til umsagnar frá sameiningarnefnd og virðist nafnið Strandabyggð njóta mest fylgis af þeim og styðja það um 36% eins og staðan er núna. Nafnið Sveitarfélagið Strandir styðja 15%, Strandahrepp 11% og Heimabyggð 10%. Um það bil 28% merkja við "Eitthvað annað".

Það eru þó ekki bara Strandamenn sem eru að velta nafninu Strandabyggð fyrir sér, því fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is rak augun í það á dögunum að Strandabyggð var ein af þeim tillögum sem fram kom um nafn á sameinað sveitarfélag Skeggjastaða- og Þórshafnarhreppa. Þar voru 9 tillögur sendar Örnefnanefnd til umsagnar og gerð verður skoðanakönnun um nokkur nöfn samhliða kosningunum. Þar kemur það svo í hlut nýrrar sveitarstjórnar að ákveða nafnið endanlega. 

Önnur aðferð er notuð á Ströndum því samkvæmt reglum sameiningarnefndarinnar Hólmavíkur- og Broddaneshreppum hefur skoðunarkönnun um nýtt nafn þegar farið fram, þegar tillögum að nýju nafni var safnað. Sameiningarnefndin valdi svo fjögur nöfn til að senda Örnefnanefnd til umsagnar. Um 60 tillögur bárust í þessari könnun. Samkvæmt þessum reglum eiga kjósendur síðan að kjósa á milli þriggja af þeim tillögum sem Örnefnanefnd samþykkir, en niðurstaða hennar hefur ekki verið kynnt enn. Athygli vekur að nefndinni hafi ekki verið send fleiri nöfn til umsagnar, því alltaf er töluvert um að tillögum að nöfnum sé hafnað.

Í reglunum sem kynntar voru í dreifibréfi frá sameiningarnefndinni kom einnig fram að það nafn sem flest atkvæði fær í kosningu samhliða sveitarstjórnarkosningunum verði nýtt nafn á sveitarfélaginu.