22/12/2024

Strandabúðin lækkar verðin strax

Tekin hefur verið ákvörðun um að Strandabúðin sem er sölubúð Galdrasýningar á Ströndum á vefnum lækki verðin strax miðað við tilkynningu ríkisstjórnarinnar í gær um lækkun virðisaukaskatts þann 1. mars n.k. Það eru eingöngu bækur af þeim vörum sem fást í Strandabúðinni sem breyta um virðisaukaþrep og munu bera 7% skatt í stað 14% eftir að ný lög um virðisaukaskatt taka gildi þann 1. mars á næsta ári. Viðskiptavinir Strandabúðarinnar munu strax finna fyrir lækkun vöruverðs og Strandabúðin mun taka á sig mismuninn á innskatti og útskatti fram til 1. mars. Með þessu er verið að stíga skref til lækkunar vöruverðs og er um leið hvatning til annara smásöluaðila í landinu til að leggja sitt af mörkum í baráttunni við verðbólgudrauginn. 

Strandabúðin sendir vörur um allt land en umsvif búðarinnar skipta orðið miklu máli við rekstur Galdrasýningar á Ströndum. Slóðin inn á Strandabúðina er www.galdrasyning.is/strandabudin.