Samkvæmt verkáætlun á vef Mílu og fréttatilkynningu fyrirtækisins sem birt var á mbl.is í gær er von á stórbættu netsambandi á Hólmavík þegar ljósveita Mílu nær þangað á öðrum ársfjórðungi ársins 2014. Hólmavík er í hópi sex staða sem tengdir verða ljósveitunni í vor og munu Hólmvíkingar eiga kost á mun hraðari tengingu í lok júní, sem væntanlega eykur enn á gleðina á Hamingjudögum sem haldnir verða um svipað leyti. Ljósveita er sambönd sem byggja að mestu leyti á ljósleiðara kölluð, ýmist nær þá ljósleiðarinn alveg inn í hús eða það sem er kallað ljósnet og verður í boði á Hólmavík, en þá nær ljósleiðari að símstöð og allir sem eru í minna en kílómetra fjarlægð geta tengst ljósnetinu í gegnum koparþráð (hefðbundna símalínu). Hraðinn á að verða allt að 50 mb/sek sem er margfaldur sá hraði sem nú er í boði. Eins verður þá hægt að fá fulla sjónvarpsþjónustu gegnum tenginguna.
Til að hægt sé að koma slíkri tengingu á Hólmavík þarf, eftir því sem ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is kemst næst, að tengja Strandir ljósleiðarakerfinu sem verður mikil framför og hefur lengi verið baráttumál heimamanna. Ekki hafa enn fengist svör frá Mílu um hvernig því verður háttað, en upplýsingar þar um verða birtar um leið og þær fást. Frétt mbl.is má nálgast undir þessum tengli og hér má nálgast verkáætlun Mílu fyrir 2014 (undir verkáætlun).