30/10/2024

Steypireyður á Steingrímsfirði?

Undanfarna daga hafa verið innst á Steingrímsfirði tveir stórir hvalir. Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum sem er áhugamaður í hvalagreiningu telur að um steypireyði sé að ræða: „Að minnsta kosti er ljóst er að um mikið stærri hvali er að ræða en hrefnu og hnúfubak tel ég mig líka þekkja," segir Guðbrandur. „Í fyrrinótt um eitt var ég að drattast heim, þá var Jón póstur Halldórsson að fylgjast með þeim innan við Grjótána. Þar voru þeir í einhverju æti og gekk mikið á, þar voru þeir svo alveg fram á þrjú í nótt og komu einnig yfir undir Bassastaði. Þá hætti ég að fylgjast með þeim en í morgun hafa þeir verið innan við Grjótána  og damlað út á miðjan fjörð."

„Þetta er kjörin hvalaskoðun, vera bara uppi á landi með sjónauka. Best er að sjá hvalina þegar logn er sem oftast er á kvöldin og nóttinni, en þessar skepnur eru færanlegar svo ekki er alveg öruggt að sjá þá. Samt hafa þeir haldið sig á þessu svæði nokkuð lengi," segir Guðbrandur.

Á hvalavef Ríkisútvarpsins kemur fram að steypireyðurin er og hefur alltaf verið stærsta dýr jarðarinnar. Við fæðingu er kálfurinn 6–7 m og um 2,5 tonn. Hann er á spena í um það bil 7 mánuði og þyngist um 100 kg á dag. Fullorðið dýr getur orðið 33 m á lengd og 190 tonnum, en flest dýr eru 25-27 m á lengd og 110–130 tonn að þyngd. Kvendýrið er heldur stærra en karldýrið. Steypireyðurin er dökkgrá eða blágrá á litinn, spengileg, ílöng og grannvaxin. Að öllu eðlilegu lifir hún í um 100 ár.
Steypireyðurin er farhvalur. Hún heldur sig á norðurslóðum á sumrin þar sem hún étur og fitnar, en á vetrum heldur hún sig í hlýrri sjó, þar sem hún étur lítið og horast. Aðalfæða steypireyðurinnar er krabbasvifdýr og étur hún um 4 tonn á dag. Steypireyðurin er ekki talin í útrýmingarhættu, en hefur verið alfriðuð fyrir veiðum síðan árið 1960.