22/11/2024

Stefnt að aukinni veltu Strandavara

Forsíða StrandabúðarinnarStrandabúðin opnaði formlega í morgun með pomp og pragt, en það er sölusíða á veraldarvefnum sem verslar með allrahanda Strandavörur. Þar geta framleiðendur handverks og aðrir vöruframleiðendur á Ströndum skráð vörur sínar og komið þeim á markað jafnt innanlands sem erlendis. Þetta er fyrsta vefverslunin á landinu svo vitað er um, sem gengur út á markaðssetningu og sölu á framleiðslu frá einu einstöku héraði.

Strandagaldur stendur fyrir framtakinu en þeir galdramenn hafa undanfarið verið að betrumbæta sölusíðuna sína sem hefur verið mikið nýtt um allan heim. Sigurður Atlason verslunarstjóri Strandabúðarinnar segist vænta þess að þetta uppátæki eigi eftir að verða til þess að framleiðendur vandaðs handverks og annarrar framleiðslu í héraðinu, s.s. harðfisks og hákarls muni auka tekjur sínar og þá sérstaklega utan hefðbundins ferðamannatíma, og hvetur alla til að hafa samband og láta skrá vöruna í Strandabúðina.

Stefnt er að því að versla einnig með vörur eins og bækur um héraðið, tónlist og nánast öllu öðru sem nöfnum tjáir að nefna og hægt er að senda til viðskiptavina um veröld alla. Auk þess er að finna inni á vefverslun Strandabúðarinnar þær vörur sem Galdrasýning á Ströndum hefur boðið upp á.

Kynningarfundur var haldinn á Hólmavík í gær þar sem verkefnið var kynnt og gerðu fundarmenn góðan róm að síðunni. Íslenski hluti Strandabúðarinnar var opnaður formlega í morgun og erlendi hlutinn verður opnaður innan fárra vikna. Hægt er að komast inn á vefverslunina af heimasíðu Galdrasýningar á Ströndum og einnig héðan af strandir.saudfjarsetur.is, á neðsta tenglinum hér vinstra megin. Slóðina inn á vefverslunina er einnig að finna hér.

.
Nokkrir þátttakendur á kynningarfundinum á Galdrasýningunni í gær