23/12/2024

Staðreyndir um samgöngu- og fjarskiptamál í Norðvesturkjördæmi

Aðsend grein: Sturla Böðvarsson samgönguráðherra
Það er leitt til þess að vita að stjórnarandstaðan hefur ekkert tekið eftir því sem er að gerast í kjördæminu okkar á sviði fjarskipta og samgöngumála. Fremstur þar í flokki hefur verið Jón Bjarnason og skrifar hann eins og hann búist við að almenningur í kjördæminu fylgist ekki heldur með. Ég vil því í þessari grein draga saman upplýsingar svo menn geti leitað í þá smiðju til að fræðast. Jafnframt vil ég hvetja íbúa Norðvesturkjördæmis til þess að kynna sér annars vegar hvernig framvindan hefur verið á sviði fjarskipta og samgöngumála og hins vegar hvernig ótrúlega neikvæður málflutningur hefur gegnsýrt alla framgöngu stjórnarandstöðunnar og þá sérstaklega þingmanna Vinstri grænna.

Fjarskiptamál

Alþingi samþykkti að minni tillögu breytingar á fjarskiptalögum sem markaði þá skyldu að gerð skuli fjarskiptaáætlun. Var hún síðar unnin og samþykkt á Alþingi og jafnframt stofnaður Fjarskiptasjóður. Í kjölfarið var Síminn seldur og í sjóðinn runnu tveir og hálfur milljarður króna til sérstakra verkefna sem öll eru til þess að tryggja sem best fjarskipti í dreifbýlinu. Á vegum Fjarskiptasjóðs hafa nú verið boðin út verkefni við uppbyggingu GSM-símakerfisins á þjóðvegum og fjölförnum ferðamannasvæðum, samið um stafrænar sjónvarpssendingar um gervihnött til að senda dagskrá útvarps og sjónvarps RÚV til sjófarenda og þeirra sem búa í mesta dreifbýlinu og ná ekki sjónvarpssendingum. Jafnframt er unnið að útboði háhraðatenginga fyrir þá sem ekki njóta ADSL tenginga fyrir tölvur og sjónvarp. Þannig er stefnt að því að ná öllum markmiðum fjarskiptaáætlunar og því markmiði að Ísland verði altengt og í fremstu röð þjóða á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Norðvesturkjördæmi mun njóta þessara aðgerða ríkulega. Þessum mikilvægu aðgerðum mun að mestu ljúka á þessu ári.

Stjórnarandstaðan og þá sérstaklega Vinstri grænir gerðu allt sem þeir gátu til þess að tefja þessi mál í þinginu og notuðu andstöðu sína við sölu Símans sem ástæðu. Þeir vissu auðvitað samt sem áður að ekkert ríki í Evrópu á og rekur símafyrirtæki í samkeppni við einkarekin fyrirtæki á hinum frjálsa fjarskiptamarkaði. Fjarskiptin voru gefin frjáls og því var ekki um neitt annað að ræða en að tryggja það umhverfi sem gagnaðist best öllum almenningi í landinu. Fjarskiptaáætlun og Fjarskiptasjóður hafa tryggt þá framvindu á sviði fjarskipta sem mikilvægust er, það að dreifbýlið sitji ekki eftir. Andstaða og andróður við sölu Símans og andstaðan við löggjöfina, sem tryggði Fjarskiptaáætlun og Fjarskiptasjóð, var því tilræði við hagsmuni fólksins á landsbyggðinni.

Flugmál

Með því að styrkja áætlunarflugið til Bíldudals, Gjögurs og Sauðárkróks hefur verið mörkuð skýr stefna af hálfu samgönguyfirvalda um að flugið skuli þjóna hinum dreifðu byggðum. Með útboði eru veittir ríkisstyrkir til áætlunarflugs til þessara staða.

Flugvellir kjördæmisins eru að verða mjög vel uppbyggðir með góðum öryggisbúnaði og aðflugsbúnaður og flugbrautir eru í stöðugri endurnýjun. Á kjörtímabilinu hefur verið lögð áhersla á  að tryggja sem best flugöryggi vegna flugs til Vestfjarða. Íbúar Vestfjarða eiga mikið undir áætlunarfluginu sem síðustu árin hefur verið að eflast m.a. vegna aðgerða samgönguyfirvalda. Það hefur verið gert með því að bæta Ísafjarðarflugvöll, með því að endurbyggja Þingeyrarflugvöll og með áherslu á flugið til Bíldudals og Gjögurs.

Með breytingum á skipan flugmála munu Flugstoðir ohf. sjá um og reka flugvellina með styrk úr ríkissjóði samkvæmt þjónustusamningi. Gert er ráð fyrir því að viðhalda öllum flugvöllum sem eru í notkun í dag. Í samgönguáætlun eru Ísafjarðar/Þingeyrarflugvöllur, Bíldudalsflugvöllur, Gjögursflugvöllur og Sauðárkróksflugvöllur hluti af grunnnetinu og njóta því forgangs í viðhaldi og uppbyggingu vegna meiri umferðar. Aðrir flugvellir og lendingarstaðir í kjördæminu njóta fjárveitinga af sameiginlegum sjóðum áætlunarinnar.

Meðal verkefna, sem sinna þarf sérstaklega, er að viðhalda flugvöllunum á Patreksfirði og Blönduósi og auk þess að bæta flugbrautir á Rifi, Stykkishólmi, Stóra-Kroppi, Húsafelli og við Borgarnes vegna leiguflugs og kennsluflugs sem fer ört vaxandi. Aðrir lendingarstaðir, sem eru í áætlun en eru minna notaðir, eru Arngerðareyri, Búðardalur, Dagverðará, Hólmavík, Hveravellir, Reykhólar og Kaldármelar.

Hafnamál

Miklar framkvæmdir hafa verið við hafnir í kjördæminu síðustu árin. Þróun flotans og  auknar kröfur um meira dýpi og betra skjól í höfnum kallar á framkvæmdir sem sveitarfélögin leggja áherslu á og Hafnabótasjóður ríkisins styrkir. Aðstaðan fyrir útgerðina er því mjög góð í kjördæminu og ætti að geta laðað að viðskipti fiskiskipaflotans og eflt sjávarútveginn í kjördæminu sem liggur einstaklega vel við gjöfulum fiskismiðum.

Samgönguáætlun gerir ráð fyrir verulegum framkvæmdum í höfnum kjördæmisins. Á árunum 2007-2010 er gert ráð fyrir að leggja 1.210 milljónir króna til hafnagerðar í Norðvesturkjördæmi. Mest er áætlað á þessu ári eða 615 milljónir króna til hafnargerðar og sjóvarna. Ferjuhafnir eru hluti af mikilvægum verkefnum samgönguáætlunar og er gert ráð fyrir að tryggja bæði góða aðstöðu fyrir Breiðarfjararferjuna svo og endurbætur lendingastaða vegna útgerðar smábáta.

Vegamál

Framkvæmdir í vegamálum hafa verið miklar síðustu árin og framundan eru áfram miklar framkvæmdir í samræmi við samgönguáætlun. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að leggja 14.7milljarða til vegagerðar í Norðvesturkjördæmi  á árunum 2007-2010. Þingmenn stjórnarandstöðunnar virðast ekki hafa tekið eftir því og þeir reyndu allt sem þeir gátu til þess að stöðva afgreiðslu nýrra vegalaga og samgönguáætlunar í þinginu við þinglokin. Í samgönguáætlun er mörkuð skýr stefna um að ljúka tengingu byggðanna við megin flutningaleiðir landsins. Meðal stórverka á öðru tímabili áætlunar eru jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og nýr vegur um Dynjandisheiði. Til þess að ekkert fari á milli mála um þau verkefni sem áætluð eru í vegagerð í Norðvesturkjördæmi læt ég fylgja með hér fyrir neðan yfirlit yfir helstu framkvæmdir sem áætlaðar eru næstu fjögur árin. Staðreyndirnar tala sínu máli og sama hvað Jón Bjarnason eða aðrir kjósa að halda fram þá eru þetta verkefnin sem bundin hafa verið í samgönguáætlun og samþykkt af Alþingi. Þessar áætlanir eru ekki úr lausu lofti gripnar heldur vandlega unnar í samráði við hagsmunaaðila, sveitarstjórnarmenn og sérfræðinga kjördæminu til heilla. Látum staðreyndirnar tala sínum máli.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra
www.sturla.is

Helstu verkefni samgönguáætlunar í NV-kjördæmi á næstu fjórum árum: 

Hringvegur
Öryggisaðgerðir á Borgarfjarðarbrú og tengingar í Borgarnesi 110 milljónir
Vegur um Norðurárdal 380
Færsla vegar og ný brú á Hrútafjarðará 340
Endurbætur vegar um Blöndós, við Geitaskarð og á Vatnsskarði 62
Vegur um Norðurárdal í Skagafirði 500

Borgarfjarðarbraut, brú á Reykjadalsá, vegamót við Varmaland 174

Uxahryggjavegur um Lundareykjadal 80

Snæfellsnesvegur
Færsla vegar við athafnasvæði Loftorku 135
Nýjar brýr á Hítará og Haffjarðará 312
Endurbygging vegar um Fróðárheiði 200

Laxárdalsvegur, endurbygging 100

Vestfjarðarvegur
Um Tunguá 41
Laxá við Búðardal, ný brú 135
Svínadalur – Flókalundur, endurbygging vegar og þverun fjarða 2.160
Hjarðardalsá 53

Djúpvegur
Breikkun vegar og tenging við hringveg 243
Heydalsá – Þorpar 95
Ísafjörður-Mjóifjörður-Hestfjörður-Seyðisfjörður endurbygging 1.800
Súðavíkurhlíð, endurbætur 40

Óshlíðargöng milli Hnífsdals og Bolungarvíkur 3.680

Hvammstangavegur 30

Svínadals-, Leirársveitar-, Melasveitar-, Skorradalsvegur 155

Akranessvegur, þjóðbraut 160

Hvanneyrar-, Þverárhlíðar-, Hvítarársíðu-, Ferjubakkavegur 122

Kvíabryggju-, Framsveitar-, Helgasveitarvegur 101

Haukadalsvegur að Eiríksstöðum 40

Klofningsvegur 40

Arnkötludalur – nýr vegur í stað Tröllatunguvegar 940

Örlygshafnarvegur 50

Ingjaldssandsvegur að Núpi 30

Strandavegur 342

Drangsnessvegur 104

Miðfjarðavegur 90

Vatnsness-, Víðidals-, Vatnsdalsvegur 144

Reykjabraut 110

Svínvetningabraut 95

Þverárfjallsvegur 610

Skagavegur 113

Tindastólsvegur, að skíðasvæði 39

Skagafjarðarvegur 135

—————–
Samtals 14.717