12/09/2024

Staða og horfur í rækjuiðnaði

Nýlega kom út skýrsla nefndar sem Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra skipaði til að fjalla um stöðu og horfur í rækjuiðnaði á Íslandi og leggja fram tillögur til úrbóta. Í framhaldi af því hefur ráðherrann boðað frumvarp sem lagt verður fyrir Alþingi á allra næstu dögum, um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og eiga þessar breytingar að gilda fyrir yfirstandandi fiskveiðiár og tvö næstu. Er þessum tillögum ætlað að bæta stöðu rækjuiðnaðarins.

Breytingatillögur ráðherrrans

Fyrri breytingin snýst um að þó að ekki sé nýtt úthlutuð aflaheimild í úthafsrækju leiði það ekki til þess að skip missi aflahlutdeild sína í úthafsrækju eða öðrum tegundum. Hins vegar nýtist rækjuveiðar til að fullnægja veiðiskyldu gagnvart öðrum tegundum.

Hin breytingin snýst um að veiðigjald fyrir úthafsrækju verður greitt eftir á miðað við landaðan afla í lok fiskveiðiárs, en ekki innheimt í upphafi fiskveiðiárs miðað við úthlutað aflamark.

Aflabrestur og erfiðleikar

Margt fróðlegt er að finna í skýrslunni um rækjuvinnsluna, en hana má nálgast í heild sinni undir þessum tengli. Þar kemur m.a. fram að ástand rækjustofna hefur verið lélegt að undanförnu og rækjuveiði við Ísland er nú sú minnsta í 20 ár. Verulegur aflabrestur hefur orðið í úthafsrækjuveiðum, var 5 þúsund tonn á síðasta ári en 65 þúsund tonn 1995, og innfjarðarækjuveiði sem var 10 þúsund tonn 1995 var um 500 tonn á síðasta ári. Á yfirstandandi fiskveiðiári hefur engum kvótum í innfjarðarækjuveiði verið úthlutað og reynt hefur verið að koma til móts við hagsmuni þeirra sem stunduðu innfjarðarækjuveiði með úthlutun sérstakra aflabóta.

Í skýrslunni segir að ómögulegt sé að segja til um hvenær breyting verði til batnaðar í veiðum, en það að rækjan veiðist á Íslandsmiðum sé forsenda þess að rækjuiðnaður eigi sér framtíð á Íslandi. Búast megi við erfiðu rekstrarári framundan vegna þess hve gengi krónunar er sterkt, en einnig vegna aflasamdráttar og slakri stöðu rækjustofna, lágs verðs, aukins framboðs frá samkeppnislöndunum, einkum Kanada, og óbeinnar samkeppni frá heitsjávarrækju og eldisrækju.

Þá kemur fram í skýrslunni að nýtingin í rækjuvinnslu á Íslandi hefur batnað til muna með tæknivæðingu og  hagræðingu. Þrátt fyrir það verði erfitt fyrir vinnsluna að standa af sér þetta erfiða rekstrartímabil. Verksmiðjurnar verða vegna þessa aflasamdráttar að byggja framleiðslu sína á innflutningi á iðnaðarrækju, en gera megi ráð fyrir samkeppni frá Noregi í þeim efnum. Markaðir eru fyrir hendi en ekki fæst nægilega hátt verð fyrir rækjuna.

Úr átján rækjuvinnslum í átta

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru 18 rækjuvinnslustöðvar starfræktar í landinu árið 2000. Í ársbyrjun 2004 hafði þeim fækkað um þrjár og höfðu þá Eskja hf á Eskifirði, Gefla hf á Kópaskeri og Rækjuvinnslan Pólar hf – Ljósavík á Siglufirði hætt starfsemi. Fjórar vinnslustöðvar til viðbótar lokuðu síðan á árinu 2004 – Rækjuver hf á Bíldudal, Saltver ehf í Njarðvík, Skagstrendingur hf á Skagaströnd og Særún ehf á Blönduósi. Í ársbyrjun 2005 voru þannig 11 rækjuvinnslustöðvar enn starfandi á landinu og á því ári fækkaði þeim enn. Á árinu 2005 hættu Frosti hf í Súðavík, Íshaf hf á Húsavík og Sigurður Ágústsson hf í Stykkishólmi starfsemi.

Í ársbyrjun 2006 eru þannig aðeins 8 rækjuvinnslur starfandi í landinu, allar á svæðinu frá Snæfellsnesi að Akureyri. Þannig eru sex þeirra sem enn starfa í Norðvesturkjördæmi. Þetta eru Fiskiðjan Skagfirðingur hf í Grundarfirði (23 í vinnu), Bakkavík hf í Bolungarvík (30 í vinnu), Miðfell hf á Ísafirði (35 í vinnu), Hólmadrangur hf á Hólmavík (25 í vinnu), Meleyri hf á Hvammstanga (15 í vinnu), Dögun ehf á Sauðárkróki (25 í vinnu), Þormóður rammi/Sæberg hf á Siglufirði (39 í vinnu) og Samherji hf – Strýta á Akureyri (31 í vinnu).

Áhrif á byggðirnar

Eftir breytingar á síðustu árum, er enginn staður sem á lengur jafn mikið undir rækjuvinnslunni atvinnulega séð og Hólmavík. Sem betur fer hafa engar fréttir borist af sérstökum erfiðleikum í starfsemi Hólmadrangs, en staða greinarinnar hlýtur þó að valda töluverðum áhyggjum.

Á Hólmavík voru samtals 248 aðalstörf árið 2004 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Hjá Hólmadrangi hf voru 26 störf í rækjuiðnaði árið 2004, eða rúmlega 10% allra starfa á staðnum. Þegar litið er á heildarfjölda starfa á landinu miðað við íbúafjölda (um 1,86 hafa að meðaltali lifibrauð af hverju starfi) má ætla að tæplega 50 íbúar hafi haft afkomu af rækjuiðnaði á Hólmavík árið 2004. Því er ljóst að byggðarlagið á mikið undir því að rekstur rækjuvinnslu Hólmadrangs gangi sem best.

Á tveimur árum hefur störfum í rækjuvinnslu á Íslandi fækkað úr 450 í um 220 og ljóst er að þessi fækkun starfa skapar mikil vandamál í smærri byggðarlögum sem treysta á þennan iðnað. Áfallið við lokanir á verksmiðjum snýr ekki bara að þeim einstaklingum sem tapa störfum sínum og eiga hugsanlega erfitt með að fá aðra vinnu í litlum byggðakjörnum og fjölskyldum þeirra. Það snýr einnig að viðkomandi sveitarfélagum enda minnka tekjustofnar þeirra verulega þegar verksmiðjum er lokað.

Mest áhrif af slíkri lokun hafa líklega verið í Súðavík þar sem Frosti hf hætti starfsemi á síðusta ári, en við það töpuðust um 30% allra starfa á Súðavík. Með fjölbreyttum og markvissum aðgerðum sveitarstjórnarinnar virðist þó hafa tekist að koma í veg fyrir hrun byggðarinnar og fólksflótta úr sveitarfélaginu í kjölfar lokunarinnar.

Tillögur nefndarinnar

Tillögur sem Einar K. Guðfinnsson ráðherra boðar í frumvarpi eru mjög samhljóða tillögum nefndarinnar sem hann skipaði og eru í stuttu máli þessar:

* Nefndin leggur til að leitað verði leiða til að afnema veiðiskyldu á meðan þetta ástand varir.
* Nefndin leggur til við stjórnvöld að þau endurskoði lög um veiðigjald á þann veg að veiðigjald fyrir rækjufyrirtæki verði afnumið tímabundið.
* Nefndin leggst gegn því að veita almenna styrki til rækjufyrirtækja.
* Tveir af þremur nefndarmönnum, þeir Ólafur Marteinsson og Pétur Grétarsson, leggja til að úthafsrækjuútgerð sitji við sama borð og aðrar greinar sjávarútvegs, s.s. veiðar á hörpudiski og innfjarðarækju, þegar úthlutað er bótum vegna aflabrests samkvæmt 9 gr. laga um stjórn fiskveiða. Formaður nefndarinnar og fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins í nefndinni, Davíð Ólafur Ingimarsson, telur að ekki sé tímabært að taka afstöðu til þessa máls að svo stöddu.

Í nefndinni sem skýrsluna gerðu voru Davíð Ólafur Ingimarsson hagfræðingur hjá sjávarútvegsráðuneytinu sem var jafnframt formaður; Ólafur H. Marteinsson  framkvæmdastjóri hjá Þormóði ramma – Sæberg og Pétur Grétarsson hagfræðingur hjá Byggðastofnun.