28/03/2024

Spjalltorgið opnað að nýju

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is er hægt og sígandi að komast í samt lag eftir meiriháttar bilun sem varð hjá hýsingaraðila vefjarins fyrir páska. Í dag var opnað að nýju fyrir spjalltorgið á strandir.saudfjarsetur.is sem margir hafa saknað sárt. Þar með opnast líka fyrir hólf sem eru þar undir eins og Samgöngutorgið, Smáauglýsingar að ógleymdu Hagyrðingahorninu. Gaman væri nú ef Strandamenn tækju vel við sér við að nota þennan vettvang til samræðu um hvað sem þá langar til að tala um.

Rétt er að minna á að nafnleynd er ekki leyfð á Strandamannaspjallinu og að ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is ritskoðar allt efni þar sem mest hún má og hafnar bréfum hiklaust ef henni sýnist svo. Mislíki einhverjum það getur sá hinn sami bara stofnað sinn eigin spjallvef.

Sem betur fer tókst að lagfæra gamla spjallið þannig að allt sem þar var skrifað mun varðveitast um ókomna tíð og eflaust verða heilabrot að fást við það hjá sagnfræðingum framtíðarinnar. Sömu sögu er hins vegar ekki að segja af myndum sem fylgdu fréttum – þær hafa ekki fundist á vefþjóninum. Ritstjórn er þess vegna hægt og sígandi að setja myndirnar og ýmis önnur skjöl aftur inn eftir því sem tími gefst til, en það er tímafrek iðja. Enn er eftir að lagfæra myndir með um það bil 400 fréttum.