19/07/2024

Spjallhornið á strandir.saudfjarsetur.is

Fuglahræðan góðaÁ strandir.saudfjarsetur.is hefur verið opinn spjallþráður frá því að vefurinn opnaði, en nú hefur verið ákveðið að gera nokkrar breytingar á honum í tilraunaskyni. Það er að nokkru leyti gert til að spara stjórnendum fréttamiðilsins tíma og fyrirhöfn. Ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is telur að tímanum sem varið er við vefinn sé betur nýttur við skrif inn á fréttahluta vefjarins.

Hér eftir fara öll skrif á Strandamannaspjallinu á bið, það er að þau birtast ekki fyrr en einhver úr ritstjórn hefur yfirfarið skrifin og annaðhvort samþykkt þau eða hafnað. Það er ekki sjálfgefið að það gerist strax því öll ritstjórn vefjarins er unnin í sjálfboðaliðavinnu og ritstjórn er ekki endilega við tölvuna öllum stundum.

Notendum spjallsins er einnig bent á að hér eftir verða ekki birt skrif, nema með fylgi fullt nafn eða kenninafn sem ritstjórn og aðrir lesendur geta auðveldlega þekkt þá af. Umræða um nafnleynd hefur verið á spjallinu undanfarna daga og ritstjórn er sammála um mikilvægi þessarar breytingar. Jafnframt bendum við á að hver sem er getur opnað eigið spjalltorg á veraldarvefnum á sína eigin ábyrgð og haft það með því sniði sem viðkomandi kýs.

Einnig þurfa öll bréf að vera málefnaleg og það gengur ekki að umræða um einstök málefni breytist yfir í umræðu eða glósur um aðra spjallara eða einstaklinga sem tengjast málinu beint eða óbeint.

Engar breytingar verða gerðar að sinni á öðrum hlutum Spjalltorgsins. Það er sannfæring ritstjórnar að þessar breytingar verði til að efla spjallið og gera það öflugra og málefnalegra til lengri tíma litið. Áfram Strandir.