22/12/2024

Spjallað við Strandamann ársins

Guðbrandur Einarsson, Strandamaður ársins 2005, er fæddur 26. janúar 1963. Guðbrandur er Kollfirðingur í húð og hár, sonur Sigríðar Guðbrandsdóttur og Einars Eysteinssonar á Broddanesi. Guðbrandur býr ásamt konu sinni, Ingibjörgu Jensdóttur, og tveimur dætrum þeirra í Reykjavík, en stundar einnig búskap á Broddanesi yfir sumartímann. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is, Arnar S. Jónsson, sló á þráðinn til Guðbrandar í kvöld og átti við hann létt spjall auk þess að færa honum fréttir af útnefningunni:

 

Hvað ertu að fást við þessa dagana?
Ég er lærður nuddari og er búinn að vera með sjálfstæðan rekstur á nuddstofu í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í rúmlega sex ár. Ég útskrifaðist sem nuddari frá Nuddskóla Íslands árið 2000 en fékk síðan meistararéttindi vorið 2002. Þetta er aðalstarfið mitt hérna fyrir sunnan, en svo fer ég alltaf norður að sinna búskapnum.

Þannig að það er nóg að gera allt árið?
Já, já. Ég er síðan svolítið að vinna við ýmis félagsstörf. Ég er formaður í Félagi íslenskra heilsunuddara sem er býsna stórt félag með um 200 félagsmenn. Þá sit ég líka í stjórn Bandalags íslenskra græðara sem eru regnhlífasamtök óhefðbundinna meðferðaraðila. Þannig að það er nóg við að vera, já.

Ertu mikið norður á Ströndum?
Já, ég eyði stórum hluta ársins á Broddanesi við búskapinn. Ég er þar mest allt sumarið en svo fer ég suður á bóginn eins og farfuglarnir þegar sláturtíð er lokið.

Ertu búinn að jafna þig eftir gönguna í sumar?
Já, biddu fyrir þér, fyrir löngu síðan. Ég segi reyndar stundum í gríni að það hafi tekið mig tvo daga að jafna mig líkamlega, en ég muni hins vegar aldrei ná mér andlega. Þetta var í rauninni ekkert svo mikið líkamlegt erfiði – við lögðum mikla vinnu í að þjálfa okkur upp og vorum vel búnir með frábært aðstoðarfólk.

Var þá ekkert erfitt við gönguna miklu?
Ekki þannig séð, það er alla vega erfitt að benda á eitthvað sérstakt. Þó er kannski hægt að nefna að gangan var svolítið erfið fyrir andlegu hliðina enda stóð hún yfir í 46 daga. Það er ekki hægt að neita því að það kom fyrir að maður varð leiður á köflum en það varð aldrei alvarlegt. Okkur var einstaklega vel tekið hvar sem við komum við og gestrisni landsmanna með eindæmum. Þessar móttökur eru manni einna efst í huga eftir gönguna og það er óhætt að segja að höfðingsskapur landsbyggðarmanna hafi sett punktinn yfir i-ið á vel heppnaðri ferð.

Telurðu að markmiðin með göngunni hafi náðst?
Já, það finnst mér. Við lögðum upp með að þetta væri kynningarstarf, en ekki fjársöfnun. Tilgangur ferðarinnar var að vekja athygli á málefnum barna með sérþarfir, stuðla að heimi án aðgreiningar, að mannvirðingu og mannlegri reisn. Þá ætluðum við líka að sýna fram á að hægt er að yfirvinna hindranir með viðeigandi hjálpartækjum, þjálfun og stuðningi. Ég tel að þessi markmið hafi náðst og komist ágætlega til skila. Við Bjarki komum að öllum skipulagsþáttum frá upphafi, en það þurfti að vinna ofboðslega mikla skipulagsvinnu til að dæmið gengi upp. Við náðum að safna fjölmörgum góðum styrktaraðilum og allir tengdir göngunni unnu launalaust. Þó svo að ekki hafi verið lagt upp í ferðina með fjáröflun í huga kom hún samt út í hagnaði – kr. 250.000.- sem við skiluðum til Sjónarhóls í desember síðastliðnum.

Hvernig var veðrið á leiðinni?
Veðrið var alveg ágætt að mínu mati. Ég held að það hafi bara verið einn dagur sem við lentum í roki og rigningu, en annars var bara þokkalegasta veður á leiðinni, einhver gola við og við en ekkert sem kom í veg fyrir göngu. Eitt erfiðasta veðrið sem við lentum í á leiðinni var þegar hitinn náði 27 gráðum í Skagafirði. Hitinn var álíka hár þegar við vörum að labba á Möðrudalsöræfum, en við sluppum nú ómeiddir frá sólinni þannig að þetta var allt í lagi.

Urðuð þið aldrei hræddir á leiðinni, við bíla eða slíkt?
Nei, ég held ég geti sagt að um 95% ökumanna hafa verið afskaplega tillitssamir við okkur. Auðvitað voru einhverjir sem sýndu lítinn skilning á uppátækinu og voru í ókurteisari kantinum en flestir voru afar kurteisir og fóru varlega.

Nú var kjörorð göngunnar “Haltur leiðir blindan” – ertu alveg blindur?
Nei, en ég er mikið sjónskertur, hægra augað er orðið nánast alveg blint eftir að hafa versnað töluvert síðastliðin ár. Ég er hins vegar með 7-8% sjón á vinstra auganu sem heldur sér nokkuð vel. Ég get notað þessa sjón talsvert mikið, t.d. við tölvuvinnu og lestur, en ég þarf samt að stækka letur 12-16falt til að geta lesið vel. Ég er líka með talkerfi sem ég get tengt við tölvuna og það hefur verið mikið þróun í þessum tæknigeira undanfarin ár. Ég er svo heppinn að þessi skortur á sjóninni skiptir frekar litlu máli í starfi mínu – nuddinu.

Stefnirðu að frekari gönguverkefnum á þessu ári?
Það er ekki á döfinni hjá mér, a.m.k. ekki á opinberum vettvangi. En auðvitað langar mig að labba eitthvað meira og stefni að því að leggja eitthvað fallegt land undir fót. Ég hef haldið mér í ágætis formi eftir gönguna og á sjálfsagt eftir að nýta mér það til göngu í sumar.

Er eitthvað sérstakt sem þú vilt koma á framfæri að lokum?
Ég vil bara þakka kærlega fyrir mig. Mér finnst þetta mikill heiður – enda er ég afar stoltur af því að vera Strandamaður og vil helst hvergi annars staðar eiga heima en á Ströndum.