13/10/2024

Guðbrandur Strandamaður ársins

Göngugarpurinn, nuddarinn og bóndinn Guðbrandur Einarsson frá Broddanesi var valinn Strandamaður ársins 2005 í kosningu hér á vefnum strandir.saudfjarsetur.is. Guðbrandur vakti þjóðarathygli síðasta sumar þegar hann gekk hringveginn með Bjarka Birgissyni sundkappa í átakinu Haltur leiðir blindan. Með göngunni vöktu þeir félagar verðskuldaða athygli á starfsemi Sjónarhóls og málefnum fatlaðra og langveikra barna, um leið og þeir sýndu alþjóð að fatlaðir geta meira en margan grunar.

Góð þátttaka var í kosningunni þar sem í seinni umferð var kosið á milli þeirra þriggja sem tilnefnd voru oftast í fyrri umferðinni. Aðaheiður Ólafsdóttir söngkona frá Hólmavík sem gerði garðinn frægan í Idol keppninni síðasta vor og gaf síðan út sólóplötu fyrir jólin varð í öðru sæti og var ekki verulegur munur á milli þeirra Guðbrandar. Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli varð síðan býsna örugglega í þriðja sæti.