30/10/2024

Sögusýningin í Sævangi sett upp

Starfsmenn Sauðfjárseturs byrjuðu í dag að bisa við að setja upp sögusýninguna Sauðfé í sögu þjóðar, fyrir sumarvertíðina. Safnið í Sævangi opnar á miðvikudaginn í næstu viku, þann 1. júní, og þá þarf allt að vera fínpússað. Gera þarf sögusýninguna sjálfa klára, einnig að setja upp handverksbúðina og sjoppuna, laga til í kaffistofunni og fínisera barnahornið. Verkið gekk býsna greiðlega í dag, en þó er töluvert eftir. Á morgun kl. 14:00, að lokinni formúlukeppni nokkurri í Þýskalandi, ætla menn að halda áfram við uppsetninguna og láta hendur standa fram úr ermum fram eftir degi. Er mönnum velkomið að kíkja við og leggja hönd á plóginn og víst er að verkefnin eru næg. Vöfflur og kaffi eru á boðstólum fyrir alla sem reka inn nefið.